Í sameiginlegri yfirlýsingu aðstandenda Reykjavík Media og Stundarinnar kemur fram að með lagatæknilegum flækjum hafi þrotabúi Glitnis tekist að tefja málið sem til lykta var leitt í Hæstarétti í dag „með tilheyrandi skaða fyrir blaðamennsku og rétt almennings til upplýsinga“. Brotið hafi verið gegn upplýsingarétti almennings og vegið að réttinum til frjálsra kosninga.

Sjá einnig: Fullnaðarsigur Stundarinnar: „Á þessu b ara að ljúka svona?“

Hæstiréttur kvað upp þann dóm í morgun að lögbann Glitnis HoldCo á hendur fjölmiðlunum hefði verið ólögmætt. Fjölmiðlarnir unnu því málið á öllum þremur dómsstigunum.

Í yfirlýsingunni segir að aðstöðumunur aðila málsins hafi verið verulegur. „Hann birtist í því að aðeins laun forstjóra Glitnis HoldCo ein og sér eru hærri en samanlögð velta Stundarinnar og Reykjavik Media, samkvæmt nýjustu aðgengilegu tölum. Ljóst er að stuðningur almennings skipti sköpum í málinu og málsvörninni.“

Fram kemur að lögbannsmálið í heild hafi efalaust haft fælingaráhrif á fólk í samfélaginu sem hefur undir höndum upplýsingar eða gögn sem eiga mikið erindi til almennings. „Þrotabú Glitnis reyndi hvað eftir annað að fá að taka skýrslu af blaðamönnum um heimildarmenn en á öllum dómstigum var því hafnað. Í dómnum er skýrt kveðið á um vernd heimildarmanna og það með mjög afgerandi hætti. Við viljum hvetja fólk sem hefur undir höndum mikilvægar upplýsingar sem varða almenning að leita til okkar.“

Í yfirlýsingunni, sem hefur yfirskriftina „Frelsið hefur sigra“ segir að með málinu hafi verið brotið á upplýsingarétti almennings og þar með vegið að réttinum til frjálsra kosninga, en lögbannið var sett á 12 dögum fyrir Alþingiskosningar 2017. „Aðstandendur Stundarinnar og Reykjavik Media vonast til þess að þessi dómur, og þeir sem hann staðfestir, standi sem bautasteinn til framtíðar með varðstöðu um upplýsingarétt almennings og frelsi fjölmiðla.“

Yfirlýsinguna má sjá hér að neðan.