Laun bæjarstjórnarinnar í Hveragerði koma til með að hækka töluvert á næsta ári ef eitthvað er að marka fjárhagsáætlun sem lögð hefur verið fram af meirihluta Framsóknarflokksins og O-listans í sveitarfélaginu. Samkvæmt áætluninni virðist vera gert ráð fyrir 37% hækkun á nefndarlaunum og launatengdum gjöldum bæjarstjórnarinnar milli ára.

Friðrik Sigurbjörnsson, fulltrúi D-listans í bæjarráði Hveragerðis lagði í gær fram fyrirspurn um það hvort í raun stæði til að hækka laun bæjarfulltrúanna svo mjög eða hvort ætlunin væri að bæjarfulltrúum yrði fjölgað úr 7 í 9 á árinu.

Í svari við fyrirspurn Friðriks var hækkunin skýrð með vísan til þess að hækkun hefði orðið á hlutfalli við þingfararkaup og að laun kjörinna fulltrúa í Hveragerði hefðu lengi miðast við tiltekið hlutfall af þingfararkaupi. Vitnað var til þess að við vinnslu á fjárhagsáætlun árið 2022 hefðu allir þáverandi bæjarfulltrúar ákveðið að hver hlutur yrði 6% af þingfararkaupi það ár og síðan 7,5% árið 2023. Fjárhagsáætlunin 2023 tæki mið af þessu og þannig yrðu laun bæjarfulltrúanna í „þokkalegu samræmi við sveitarfélög af svipaðri stærð“.

Í svarinu var jafnframt vísað til þess að útreiknngur á launum kjörinna fulltrúa tæki mið af viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga og reiknireglu sem hafi verið viðhöfð hjá Hveragerðisbæ. Þar sé miðað við að í sveitarfélögum með íbúafjölda á bilinu 3.001 til 5.000 séu lægri mörk í launum kjörinna fulltrúa 14,82% af þingfararkaupi en efri mörk 19,31%. Íbúafjöldi Hveragerðisbæjar hafi farið yfir 3.000 árið 2022 og nú sé miðað við 15% af þingfararkaupi sem sé í samræmi við neðri mörkin.

Aðrar ástæður sem nefndar voru fyrir hækkuninni voru hækkun á þingfararkaupi milli áranna 2022 og 2023, fjölgun varabæjarfulltrúa á bæjarstjórnarfundum og greiðsla pólitískra fulltrúa fyrir setu á fundum SASS og Héraðsnefndar Árnesinga.