Þrír laumufarþegar fundust um borð í skipi í Sundahöfn snemma í gærmorgun. Færði lögregla þremenningana í sýnatöku og síðan í sóttvarnahús, en unnið er að því að staðfesta þjóðerni þeirra. Þetta kemur fram á vef lögreglunnar. Talið er að laumufarþegarnir hafi komið um borð í skipið í Danmörku.

Fyrir mánuði fundust fjórir laumufarþegar um borð í skipi sem kom til hafnar í Straumsvík og voru þeir einnig fluttir í sóttvarnahús. Talið er að þeir hafi komið um borð í skipið er það stoppaði í Senegal um mánaðamótin maí-júní. Laumufarþegarnir höfðu engin gögn á sér sem varpað gat ljósi á uppruna þeirra. Lögregla hefur ekki gefið frekari upplýsingar um málið.