Lík­lega mun ekki vera hægt að opna sund­laugina á Vík fyrr en eftir eða um helgina en sund­laugin er lokuð eftir sand­fok í ó­veðrinu sem gekk yfir landið í gær.

„Við getum ekkert gert strax, það er enn svo mikill vindur og svo kalt. Við þurfum að bíða eftir því að veðrið breytist,“ segir Jakub Kaźmierczyk , starfs­maður laugarinnar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Tekur langan tíma að hreinsa

Hann segir að hreinsun muni lík­lega taka dá­góðan tíma en þó þarf ekki að tæma laugarnar til að hreinsa.

„Við notum ryk­suguna sem er á botni laugarinnar, en það tekur langan tíma fyrir hana að hreinsa þetta,“ segir hann og að niður­föllin verði einnig hreinsuð svo að þau stíflist ekki.

„Þetta er ekkert stór­mál en þetta tekur allt tíma.“

Það verður reynt að sópa sandinum frá svo að hægt verði að ganga í pottinn.
Mynd/Jakub Kaźmierczyk

Reyna að opna heita pottinn og gufuna fyrr

Hann segir að reynt verði að alla­vega opna heita pottinn og gufuna fyrir helgi en laugin verði mögu­lega ekki opnuð fyrr en eftir helgina. Hann segir að heima­menn séu dug­legir að koma dag­lega auk ferða­manna og að það verði allt gert sem starfs­menn geta svo að þau geti í það minnsta farið í pottinn en á myndskeiði hér að neðan má sjá að þegar er hafinn vinna við að búa til einskonar gönguleið.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir af lauginni eftir sandfokið auk mynd­skeiðs sem Jakub tók.

Það er sandur í lauginni og við hana.
Mynd/Jakub Kaźmierczyk
Eftir óveðrið í gær fór sandur yfir stóran hluta bæjarins.
Mynd/Jakub Kaźmierczyk
Hreinsunarstarf mun taka dágóða stund.
Mynd/Jakub Kaźmierczyk