Í byrjun október tók til starfa á meðferðareiningu fíknisjúkdóma Landspítalans við Hringbraut nýtt teymi, sem kallast Laufey – nærþjónusta fíknimeðferðar og þjónustar fólk sem glímir við bæði alvarlegan fíkni- og geðvanda.

Teymið er nefnt í höfuðið á Laufeyju Jakobsdóttur eða „ömmunni“ í Grjótaþorpinu eins og margir þekktu hana.

Hópurinn sem teymið þjónustar telur líklega um 50 til 100 manns.

„Við erum að taka við teymi sem hefur sinnt fólki sem glímir við alvarlegan samþættan vanda og byggjum áframhaldandi þróun þjónustunnar að töluverðu leyti á reynslu Frú Ragnheiðar og vettvangsþjónustu sem þar er veitt,“ segir Helga Sif Friðjónsdóttir, sérfræðingur í geðhjúkrun í geðþjónustu Landspítalans.

„Markmið okkar er að færa þjónustuna út af spítalanum og til fólksins,“ segir Helga Sif og segir að það séu margar rannsóknir sem bendi til þess að fólk nýti betur þjónustuna þegar hún er nær og að þannig sé hægt að koma í veg fyrir að alvarleiki vandans haldi áfram að þróast.

„Þá er gripið fyrr inn í, einstaklingurinn þarf síður að leggjast inn og batinn birtist að öllum líkindum fyrr,“ segir hún.

Helga Sif segir að með þessum hætti sé hægt að bæta lífsgæði þessa hóps til muna. Þjónusta við þennan hóp var áður á göngudeild á Kleppi sem er staðsettur á Kleppsgörðum fjarri búsetukjörnum og gistiskýlum og það hafi einnig ýtt undir mikilvægi þess að færa þjónustuna á Hringbraut því það hafi hentað hópnum illa að ferðast á Klepp.

„Auk þess, ef fólk þarf á innlögn að halda, þá er bráðaþjónusta og móttökudeildir geðþjónustunnar á Hringbraut, þannig að það er mikilvægt líka,“ segir Helga Sif.

Þjónusta teymisins verður þó líklega umfangsmeiri og ef vel gengur sér Helga Sif fram á að geta útvíkkað hana enn frekar og þá fyrir fleiri markhópa.

„Við erum búin að óska eftir því að fá bíl, verðum með nálaskiptaþjónustu og munum gera hlutina öðruvísi en við höfum verið að gera í geðþjónustunni áður,“ segir hún.

Helga Sif segir að með því að bæta þjónustu við hópinn með þessum hætti sé gert ráð fyrir að innlögnum fækki, því að vandi notenda verður ekki eins alvarlegur ef þeir fá þjónustu við hæfi á réttum tíma.

„Ef þetta þróunarverkefni gengur vel þá er nauðsynlegt að skoða hvort og þá hver tækifærin eru til útvíkkunar á þjónustunni til þeirra sem eru í virkri vímuefnanotkun en ekki með eins alvarlegan geðrænan vanda.“