Laufey Ósk Arnórsdóttir, móðir Carmen Jóhannsdóttur, segir að Jón Baldvin Hannibalsson hafi sagt að hann myndi lögsækja þær mæðgur ef þær segðu fjölmiðlum hvað hafi átt sér stað í matarboðinu. Dóttir hennar og systir Carmen, sem var 13 ára þegar matarboðið átti sér stað bar einnig vitni frá Spáni. Dóttirin segir að Jón Baldvin hafi hent móður sinni út.

Aðalmeðferð í máli gegn Jóni Baldvin fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. Jón Baldvin er ákærður fyrir kynferðislega áreitt Carmen með því að hafa strokið rass hennar ákaft í matarboði á Spáni í júní 2018.

Laufey segir að hún hafi séð Jón Baldvin kynferðislega áreita dóttur sína. Hún lýsir atvikinu eftirfarandi.

„Það sem gerist er að þegar við erum sest þarna stendur Carmen upp, sækir vínflösku og fer að skenkja glösin. Þegar hún stendur hægra megin við Jón Baldvin að skenkja glösin teygir hann hendina upp eftir lærinu á henni upp að rass upp og niður og er hreinlega að káfa á henni,“ sagði Laufey.

„Ég sé að hún stirðnar upp og leggur frá sér flöskuna og kemur og sest við hliðina á mér. Þá segir ég: „Jón Baldvin ég held að þú verðir að biðja dóttur mína afsökunar“. Hann spyr: „Fyrir hvað?“ Ég segi að ég sé að þú varst að káfa á henni. Dóttir mín hleypur niður grátandi niður.“

Fór inn í svefnherbergi Jóns Baldvins

Laufey segir að Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins, og vinkona hennar hafi ekki tekið eftir þessu. Þær hafi verið undrandi en Jón Baldvin hafi þverneitað ásökuninni og rokið sjálfur frá borðinu og niður.

„Ég sat eftir að fór að útskýra fyrir Bryndísi og vinkonunni og það tók einhvern tíma þar til ég fæ símtal frá Carmen og yngri dóttur minni þar sem þær segja mér að þær séu farnar út úr húsinu og vilji komast í burtu,“ sagði Laufey. Þær báðu mig um að pakka öllu og koma mér út svo við getum farið.“

Laufey segir að hún hafi farið niður og séð Jón Baldvin inni í svefnherbergi hjónanna. Hann hafi legið og lesið bók. „ Ég labba þar inn og segi við hann: „Þú skalt ekki halda það, Jón Baldvin, að þó að þú sért Jón Baldvin að þú komist upp með þetta“. Svo kemur Bryndís niður og þau tala saman og ég fer inn í herbergi, tek saman dótið, þá eru stelpurnar komnar fyrir utan hurðina fyrir utan húsið. Þegar ég geng út, öskrar jón Baldvin: „Ef þú ferð með þetta í fjölmiðla mun ég lögsækja þig“. Þar með fór ég.“

Carmen Jóhannsdóttir.
Aðsend mynd.

Verjandi Jóns Baldvins spurði hana um áfengisneyslu hennar þennan dag, Jón Baldvin bar vitni um að Laufey hefði drukkið sterkt áfengi fyrr um daginn þegar þau horfðu á fótboltaleik á torgi.

„Ég fékk eitt rauðvínsglas eða eitt bjórglas meðan á leiknum stóð, síðan fórum við heim og það getur verið að ég hafi drukkið eitt rauðvíns- eða hvítvínsglas meðan við vorum að undirbúa matinn.“

„Ég þekki systur mína og vissi að það var ekki allt í lagi“

Dóttir hennar bar einnig vitni í gegnum fjarfundabúnað frá Spáni, hún sagðist hafa verið niðri í húsinu þegar matarboðið fór fram.

Þegar um 20 mínútur hafi verið liðnar af matarboðinu hafi Carmen hringt í sig, hún hafi heyrt á röddinni að það væri eitthvað „skringilegt“ við hana og sagt að hún ætlaði að sækja hana og fara með hana út í sjoppu til að tala við sig.

„Hún kom ekki eftir 10 mínútur, sem mér fannst skrýtið. Svo ég fór niður, Jón Baldvin var inni í herbergi sínu að lesa bók, fannst það skrítið að hann væri ekki uppi að borða og að Carmen væri ekki uppi,“ sagði hún.

„Ég fer og Carmen er grátandi í símanum að pakka fötunum sínum saman. Við förum út og hún skellir á. Við förum með hundinn út í sjoppu og hún segir mér að Jón Baldvin hafi verið að strjúka á henni rassinn. Hún var grátandi og ég fékk sjokk. Ég var bara í sjokki og hringdi í mömmu. Ég vildi ekki vera í kringum þetta og ætluðum að fara út og pakka öllu saman.“

Hún sagði að það væri ekki í lagi með Carmen. „Ég þekki systur mína og vissi að það var ekki allt í lagi. Ég heyrði það á röddinni hennar.“

Þær systur hafi svo farið til baka að húsinu. „Við komum til baka, þá er Jón Baldvin að henda mömmu minni út. Er að henda töskunni og lyklum og snúrum og einhverju. Hann er að öskra á mömmu og mamma að öskra til baka, ég var með hundinn og hann er frekar stór svo ég var að reyna að ná stjórn á honum. Carmen fer að hjálpa mömmu og öskrar líka til baka á Jón Baldvin, svo kem ég en man ekki eftir því. Þeim vantaði lyklana að bílnum þeir voru enn inni í íbúðinni, man ekki hvað gerðist þá.“