Jón Baldvin Hannibalsson kallar eftir því að fólki láti ekki „ofstæki, ofbeldi og hatur taka völdin“ í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að réttindabarátta kvenréttindasinna minni á ofbeldisfulla öfgahópa úr sögunni og segist vilja að konur og karlar standi saman í baráttu fyrir mannréttindum sem njóti verndar réttarríkisins. Hann vill meina að hann hafi verið dæmdur án dóms og laga eftir að 23 konur, meðal annars dóttir hans, sökuðu hann um kynferðisbrot.

Jón Baldvin byrjar greinina á að vísa til fyrri skoðanapistils sem var birtur í Fréttablaðinu í síðasta mánuði, þar sem hann reifaði vandræði Kanadamannsins Steven Galloway, sem lenti í klandri eftir að nemandi sem hann svaf hjá sakaði hann um kynferðisofbeldi. Það segir hann dæmi um saklausan mann sem var lýstur sekur án dóms og laga.

Hann bendir á að rithöfundurinn Margaret Atwood hafi tekið upp hanskann fyrir Galloway og segir að hún sé „heimsfrægur talsmaður femínista“. Atwood vill reyndar sjálf ekki kalla sig femínista og hefur verið gagnrýnd harðlega af femínistum fyrir að verja Galloway og fyrir ummæli sín um MeToo-hreyfinguna. Seinna minnist Jón á þessa gagnrýni á hendur henni, en segir að hinn valkostur Atwood hafi verið að taka þátt í að taka réttlætið í eigin hendur með ofbeldi.

Jón Baldvin segir, líkt og Atwood, að hún hafi verið að verja réttarríkið. Hann segir þetta bráðnauðsynlegt og færir rök fyrir því að það séu mikil líkindi á milli réttindabaráttu kvenréttindasinna og allra helstu ofstækishópa úr mannkynssögunni af því að „valdbeiting af þessu tagi er iðulega í upphafi réttlætt í nafni mannréttinda“. Hann segir að „öfgafemínistar“ geti ekki svarað þessari málefnalegu gagnrýni.

Hann segir að allt í kringum okkur sé þrengt að lýðræðinu og það lifi ekki án réttarríkisins. Hann segir að það þurfi að sameinast um lýðræðislegar umbætur á löggjöf og reglusetningu og að allt snúist þetta um mannréttindi, sem hverfi án réttarríkisins.