Guðni Th. Jóhannes­son hefur verið settur í em­bætti for­seta Ís­lands í annað sinn en inn­setningar­at­höfnin fór fram klukkan 15:30 í dag á Al­þingi. Vegna sótt­varna­ráð­stafana var at­höfnin að þessu sinni þó minni í sniðum en venju­lega.

Í ræðu sinni við em­bættis­tökuna ræddi Guðni um kóróna­veirufar­aldurinn og hlut­verk for­setans í því sam­hengi. Þá hvatti hann lands­menn til að sýna á­fram „seiglu og sam­stöðu í glímu okkar við vá­gestinn“ og halda á­fram að fylgja til­mælum stjórn­valda og al­manna­varna.

Athöfnin var fámenn vegna sóttvarnaráðstafanna.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„Veiran lagði fólk að velli hér. Enn veikist fólk. Enn er bólu­efni ó­fundið. Brýnar varnir hafa valdið þungum bú­sifjum. Sá skaði verður ugg­laust enn meiri áður en yfir lýkur. Nú er sumar. En vetur nálgast. Ekki er að undra ef fólk ber ugg í brjósti,“ sagði Guðni í ræðunni.

Vill efla heilbrigði og vellíðan allra Íslendinga

Hann bætti við að veiran hafi vakið Ís­lendinga til vitundar um smæð og van­mátt þeirra þrátt fyrir þekkingu og fram­farir. Þó hafi Ís­lendingar staðið saman og far­aldurinn hafi sýnt kraft heil­brigðis­kerfisins og starfs­fólks sem þar starfa. Þá hafi Ís­lendingar treyst á þekkingu sér­fræðinga og fylgt þeirra leið­sögn.

Guðni tók við embættinu í annað sinn í dag.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„Látum þessa erfiðu reynslu á rauna­stund því færa okkur von en ekki víl. Látum vandann fram undan ekki letja okkur heldur efla til dáða. Látum ekki deigan síga,“ sagði Guðni og bætti við að hann eigi þá ósk að efla heil­brigði og vel­líðan allra á Ís­landi og að hann komi til með að stefna á það sem for­seti Ís­lands.

„Sýnum sam­kennd og sam­úð en eflum líka með okkur þraut­seigju og vilja­þrek. „Gull og met­orð gagna ekki, gangir þú með sálar­hlekki.“ Þau fal­legu vís­dóms­orð ómuðu við þetta til­efni fyrir réttum fjórum árum og eru ætíð í góðu gildi. Núna var sungið um fal­legan dag, draumbláan dag. Megi ís­lensk þjóð njóta slíkra stunda um alla fram­tíð. Megi okkur auðnast að búa við frið, frelsi og far­sæld í þessu landi um ó­komin ár.“

Guðni og Eliza fyrir athöfnina.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson