Það er enginn undanskilin því að finna fyrir breytingum á samfélaginu þessa dagana og okkur lék forvitni á að vita hvernig samkomubannið leggðist í tveggja barna móður í eigin atvinnurekstri.

Önnur helgi í samkomubanni framundan, hvað á að gera?

Elda ítalskt, hlusta á ítalska tónlist og hugsa fallega til Ítalíu. Við hjónin giftum okkur þar í sumar og kynntumst mikið af fólki sem nú berst fyrir lífi sínu og búskap. Göngutúr, kubbakeppni og „make over“ á barnaherberginu er líka á dagskrá.


Hvernig er aðstæður á heimilinu?

Þetta gengur furðu vel ennþá. Maðurinn minn vinnur heima en ég er með eigin rekstur, Náttúrulega Gott þar sem við framleiðum meðal annars granóla. Við höfum tvískipt vaktinni þar og ég reyni að vera komin heim snemma svo Kalli, maðurinn minn geti unnið þá daga sem dæturnar eru heima. Þetta er töluvert pússl en allir eru að gera sitt besta. Ronja, sú yngri er enn hjá dagmömmu og Regína, sú eldri, annan hvorn dag í skólanum. Ofan á þetta bætist hefðbundin eyrnabólga og flensa.


Hvernig gengur að halda rútínu?

Ágætlega. Allt tómstundastarf er náttúrlega farið og ræktin. Kórónakílóin hrannast upp ef veðrið fer ekki að verða skemmtilegra. Það breytir öllu að komast út með börnin.


Hvers saknarðu helst?

Samvista við mitt nánasta fólk og að faðma fólk. Það er ömurlegt að sjá að fólki líður illa og að geta ekki faðmað það.


Hvað hefurðu lært um sjálfa þig/fjölskyldu þína á þessum tímum?

Að við erum merkilega skemmtileg. Við reynum að láta eins og við séum í sumarbústað og þar sem notalegheit ráða ríkjum. Spil, bakstur og valfundartímar að hætti Hjallastefnunnar.


Einhver skotheld ráð til að halda í gleðina á tímum samkomubanns?

Rauðvín og skypefundir, hollur og góður matur, göngutúrar, leyfa sér að panta mat, Ghandi og The Coocoo’s Nest hafa virkilega tekið einveruna upp á næsta stig. Við reynum að hafa plan fyrir hvern dag svo öllum líði betur. Börnin verða óróleg þegar mikil óvissa einkennir dagana og þau þekkja ekki sinn stað.