Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlinda­ráðherra, skrifaði í gær undir friðlýsingu fuglabjargsins Látrabjargs á Vestfjörðum.

Unnið hefur verið að friðlýsingu svæðisins  frá því að Alþingi samþykkti þingsályktun um náttúruverndaráætlun árið 2003.

Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins sem og búsvæði fuglanna. Þetta sé eitt stærsta fuglabjarg Evrópu og mesta sjófuglabyggð landsins.

„Í dag er stór dagur í náttúruvernd þegar við friðlýsum Látrabjarg, eitt stórbrotnasta fuglabjarg landsins og með þeim stærstu við Norður-Atlantshaf. Þá hefur orðið aukning ferðamanna út á bjargið undanfarin ár og því mjög brýnt að stýra umferð með markvissum hætti og efla umsjón með svæðinu. Von mín er sú að fuglar og menn geti notið svæðisins um ókomna tíð,“ sagði Guðmundur Ingi.