Maðurinn sem var í haldi lögreglunnar á Norðurlandi eystra eftir bruna sem kom upp í fjölbýli á Akureyri í nótt hefur verið látinn laus.

Hann var yfirheyrður síðdegis í dag en rannsókn málsins miðar vel að sögn lögreglu. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra nýtur aðstoðar tæknideildar Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Maðurinn sem umræðir var handtekinn í kjölfar eldvoðans sem kom upp í íbúðarhúsi við Sandgerðisbót á Akureyri. Húsið er á tveimur hæðum og kviknaði eldurinn á jarð­hæðinni. Húsið er eldgamalt að sögn Ólafs Stefánssonar slökkviliðsstjóra og er því líklega ónýtt.

Engan sakaði í eldsvoðanum en þrír íbúar voru heima þegar eldurinn kom upp og urðu þau vör við reykinn og komu sér út í tæka tíð.