Ferðamennirnir tveir, karl og kona, sem flutt voru frá Villingavatni á Landspítalann í gær, eru látnir. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að endurlífgunartilraunir hafi ekki borið árangur.

Bæði voru á fimmtugsaldri og frá Bandaríkjunum. Þau voru úrskurðuð látin í gærkvöldi og segir í tilkynningu lögreglu að nöfn þeirra verði ekki birt að ósk aðstandenda. 

Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu annast rannsókn slyssins.