Helga Vala Helgadóttir þingkona Samfylkingar sagði í Vikulokunum á RÚV í morgun það hafa verið óþægilegt að vita til þess að Alþingi og alþingismenn hafi verið meðal aðalskotmarka í planaðri hryðjuverkaaárás sem lögreglan kom í veg fyrir fyrr í vikunni. Hún sagði óþægilegt að hafa aðeins fengið að vita af árásinni á blaðamananfundi eins og aðrir.

„Fólki fannst mjög óþægilegt að það var látið eins og þetta kæmi okkur ekki við,“ sagði Helga Vala en eins og greint hefur verið frá eru tveir í varðhaldi vegna málsins.

Helga Vala var gestur í þættinum ásamt Hafdísi Hrönn Helgadóttur, þingkonu Framsóknarflokksins, en þær tókust þar um gagn og gildi forvirkra rannsóknarheimilda en dómsmálaráðherra greindi frá því í vikunni að frumvarp um slíkt væri tilbúið og yrði bráðlega kynnt.

Hafdís sagði í þættinum að mikilvægt væri að veita lögreglu auknar heimildir og sagðist ekki hafa áhyggjur af því að lögreglan myndi misnota slíka heimild, því það þyrfti að vera rökstuddur grunur.

Helga Vala sagði að áður en þetta skref væri stigið ætti frekar að efla lögregluna með öðrum hætti, fjölga lögreglumönnum og auka fjármagn til hennar því forvirkar rannsóknarheimildir skili ekki endilega öruggara samfélagi. Hún sagði að í vikunni hefði lögreglu, sem dæmi, vel tekist við að afstýra árásinni sem var fyrirhuguð og að hún sé með úrræði til þess.