Upplifunargarður Borgarness ehf. hyggst setja upp svokallaðan upplifunargarð í Borgarnesi og hefur sótt um lóð fyrir safn, stúdíó og veitingastað. Starfsemin á að byggja á hugmyndafræði LazyTown-sjónvarpsþáttanna og bókanna með meiru. Um væri að ræða lóð sem gæti rúmað vel 2.000 fermetra hús auk útiaðstöðu og mögulegrar stækkunar.

„Aðstandendur verkefnisins telja að slík uppbygging sem byggist á hugmyndafræði LazyTown og sett yrði upp í Borgarnesi myndi efla mjög afþreyingarmöguleika í héraðinu, styrkja ásýnd bæjarins og samfélagsins í heild og skapa fjölda nýrra starfa,“ segir Helga Halldórsdóttir í bréfi sínu til bæjarins. Hún hefur unnið síðustu þrjú ár ásamt Magnúsi Scheving, skapara LazyTown, og öðrum til að ýta verkefninu af stað. Þannig geti tekist að byggja upp á næstu árum sterkt fyrirtæki sem skapi fjölmörg störf og eigi sér enga hliðstæðu á Íslandi.

Fulltrúar Upplifunargarðs Borgarness ehf. hafa rætt við byggðarráð Borgarbyggðar sem fundaði um málið í gær. „Um er að ræða mjög áhugavert verkefni og hefur byggðarráð fullan hug á því að vinna með aðilum að framgangi verkefnisins,“ var bókað í byggðaráðinnu.

Magnús Scheving, skapari Latabæjar, er úr Borgarnesi og fram hefur komið að heimamenn hafi átt í samstarfi við hann um upplifunargarðinn.