Embætti landlæknis hefur tekið saman ráðleggingar til foreldra langveikra barna og ungmenna vegna kórónaveirunnar. Börnum með alvarlega sjúkdóma er ráðlagt að vera heima næstu vikurnar og sækja hvorki dagvist né skóla.
Eins og fram hefur komið leggst veiran þyngst á þá sem eru aldraðir og veikir en getur þó valdið alvarlegum sjúkdómi á öllum aldri, jafnvel hjá hraustum einstaklingum.
„Þó að þú tilheyrir ekki áhættuhópi ættir þú að leggja þitt af mörkum til að vernda börn með langvinna sjúkdóma gegn smiti, með því að verja þig. Samfélagslegt verkefni okkar allra er að vernda þá sem eru viðkvæmari og veikari. Munum að við erum öll almannavarnir,“ segir í leiðbeiningunum sem landlæknir birti í dag.
Líklegast er að börn sem smitist af COVID-19 sýni aðeins væg einkenni en ef börnin hafa sjúkdóma fyrir gætu einkenni sýkingarinnar orðið mun alvarlegri.
Vegna þess að smitum veirunnar fer fjölgandi segir landlæknir það ráðlegt fyrir börn, sem hafa einhvern af eftirtöldum sjúkdómum, að vera heima og fara hvorki í dagvistun né skóla næstu vikurnar þar til annað verður ákveðið. Ef fólk er ekki visst um hvort barnið þeirra sé í sérstakri áhættu vegna veirunnar skal það ráðfæra sig við sérfræðilækni barnsins.
Sjúkdómarnir eru:
Langvinnir lungnasjúkdómar og þá sérstaklega:
- Slímseigjusjúkdómur (cystic fibrosis)
- Langvinnur lungnasjúkdómur í kjölfar fyrirburafæðingar
- Primary ciliary dyskinesia
- Ákveðnir meðfæddir gallar á lungnavef
Alvarlegir hjartasjúkdómar og þá sérstaklega:
- Hjartabilun sem krefst lyfjameðferðar
- Blámahjartagallar með marktækt lækkaðri súrefnismettun (að staðaldri <90%)
Líffæraþegar (hjarta, lifur, nýru):
- Fyrstu 6 mánuðina eftir ígræðslu ef meðferð gengur samkvæmt áætlun.
Alvarlegir langvinnir taugasjúkdómar og þá sérstaklega:
- Illvíg flogaveiki (með tíðum flogum)
- Vöðva-, tauga- eða efnaskiptasjúkdómar sem hafa áhrif á lungnastarfsemi
Hvað á ég að gera ef barnið mitt er í áhættuhópi?
Þá er gefinn út listi yfir það sem foreldrar langveikra barna geta gert til að draga úr áhættu á smiti:
- Þvoðu hendur þínar reglulega með vatni og sápu, minnst 20 sekúndur í hvert skipti. Ef vatn og sápa eru utan seilingar er gott að nota handspritt, til dæmis þegar þú hefur notað greiðslukort eða komið við fleti sem margir snerta, svo sem hurðarhúna. Á vef embættis landlæknis eru góðar upplýsingar um hvernig gæta má varúðar gegn sýkingum. Þetta á sérstaklega við ef þú hefur umgengist annað fólk eða áður en þú neytir einhvers matarkyns.
- Hóstaðu eða hnerraðu í olnbogabótina ekki í lófana. Ef þú notar bréf fyrir vit við hósta eða hnerra, eða til að snýta þér eða öðrum á að hreinsa hendur eftir að bréfinu er hent í rusl.
- Reyndu að bera ekki hendur upp að andlitinu, sérstaklega augum, nefi og munni.
- Notaðu einnota hanska við óhrein verk, hentu þeim í ruslið strax eftir notkun og hreinsaðu hendur áður en farið er í næsta verk.
- Ef þú finnur einhver einkenni eða ert slappur skaltu halda þig heima þar til þú ert laus við þau.
- Takmarkaðu náin samskipti við annað fólk, t.d. handabönd og faðmlög. Finndu aðrar leiðir til þess að heilsa, sem ekki fela í sér snertingu.
- Forðastu eða taktu frí frá íþrótta- og tómstundastarfi eða aðrar athafnir þar sem þú ert í nánum samskiptum við annað fólk (til dæmis verslunarferðir, líkamsræktarstöðvar, spilakvöld, hittingur í stórfjölskyldunni, heimsóknir og heimsóknir barnabarna).
- Óskaðu eftir því að aðrir taki tillit til aðstæðna í þinni fjölskyldu og verndun þess sem er veikur fyrir.
- Ef mögulegt, er best að önnur börn á heimilinu séu heima og taki frí frá skóla eða öðrum stofnunum að því gefnu að ekki sé hægt að svæðiskipta heimilinu eða skipta um húsnæði til að vernda hinn langveika.