Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að listinn væri langur af fólki sem hann þyrfti að biðjast afsökunar eftir að fréttir hófu að birtast upp úr samtali sex þingmanna á öldurhúsi í síðustu viku. Hann gat ekki útskýrt hvers vegna hann lét ýmis ummæli falla en bar fyrir sig að hafa verið ölvaður.

„Maður á ekki tala svona. Það er sorglegt,“ sagði Gunnar Bragi. Hann sagði að menn gerðu alls konar vitleysu þegar þeir væru drukknir. „Mér dauðbrá þegar ég heyrði þetta. Eins og ummæli mín um Oddnýju Harðardóttur, þau eru hræðileg,“ sagði hann.

Það sem Gunnar Bragði sagði um Oddnýju er þetta, samkvæmt uppskrift Stundarinnar: „Hún fékk bara upp í hendurnar kjaftæði Samfylkingarinnar sem var búinn að viðgangast í alltof mörg ár. Það versta er að við látum viðgangast að maðurinn í strápilsinu sem dansaði nánast á typpinu með Skriðjöklum á sviðinu sjálfu er formaður Samfylkingarinnar.“ Maðurinn í strápilsinu er núverandi formaður flokksins, Logi Einarsson.

Gunnar Bragi sagði að Oddný hefði eyðilagt Samfylkinguna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, forystumenn og þingmenn Miðflokksins, hrósuðu Oddnýju hins vegar. Gunnar Bragi var ekki hættur og sagði þá: „Oddný er ekkert ágæt. Hún er algjör apaköttur. Hún veit ekki neitt, kann ekki neitt, getur ekki neitt.“ Þá talaði hann líka niður til Unnar Brá Konráðsdóttur sem hann sagði „kræfa kerfiskerlingu“.

Í samtalinu sagði Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, að strákar væru upp til hópa lesblindir en stelpur talnablindar. „Er það þess vegna sem þær vita ekki hjá hvað mörgum þeir sofa hjá?“ spurði þá Gunnar Bragi. Hann lét líka afar óviðeigandi ummæli falla um tónlistarmanninn Friðrik Ómar. 

Gunnar Bragi sagði á Rás 2 að honum hefði dauðbrugðið þegar hann las ummæli sín. Hann væri búinn að biðja Loga afsökunar en ætti eftir að ná í Oddnýju og Unni. „Það er bara galið að segja svona hluti,“ sagði hann en gat ekki útskýrt hvers vegna hann gerði það. „Það er eitthvað í kollinum á manni sjálfum sem maður þarf að skoða.“

Í upptökunum sem Stundin og DV hafa birt kemur fram að Gunnar Bragi telur sig eiga inni sendiherrastöðu, þegar hann þarf á að halda, fyrir að hafa skipað Geir Haarde sem sendiherra í Washington. Þá hafi Árni Þór Sigurðsson, sendiherra í Helskinki, verið skipaður til að beina athygli frá ráðningu Geirs.

Gunnar Bragi sagði að það væri rétt að Árni hefði verið skipaður á sama tíma og Geir til að milda umræðuna. Það hefði heppnast. „Hugsunin var sú að það myndi draga úr neikvæðri umfjöllun um skipan Geirs ef þetta væri gert með þessum hætti.“ Hann sagði hins vegar að það hefði staðið til lengi að skipa Árna Þór, sem væri mjög hæfur maður. 

Á barnum sagði Gunnar Bragi um þessa fléttu: „Geir slapp í gegnum þetta eins og smjör á smokknum hjá honum þarna Friðriki Ómari.“ Í morgunútvarpinu harmaði hann þessi ummæli og sagðist meta Friðrik Ómar mikils.

Hann sagði hins vegar að það væri fáránlegt að gagnrýna það að stjórnmálamenn væru skipaðir sendiherrar, enda væru þeir með mikla reynslu. Hann hafnaði því hins vegar að hann ætti inni hjá Sjálfstæðisflokknum, þó hann hafi látið þau orð falla á umræddum fundi.