„Það er mikilvægt að fólk hafi aðgang að fyrstu hjálp eftir skelfilega lífsreynslu telji það sig þurfa hana. Það breytir því þó ekki að við þurfum að hlúa vel að þeim hópi sem er loksins að leita sér aðstoðar eftir ár eða jafnvel áratugi. Það er bagalegt að sá hópur þurfi að bíða í ár eða lengur,“ segir Agnes Björg Tryggvadóttir, sér­fræðing­ur í klín­ískri sál­fræði og teym­is­stjóri áfallat­eym­is Land­spít­ala.

Áfallateymið er með þrjár þjónustulínur. Sú fyrsta er sálfræðiþjónusta Neyðarmóttöku kynferðisofbeldis, þar er engin bið eftir þjónustu. Önnur línan, sem kallast Áfallamiðstöð, er í boði fyrir þá sem leita sér aðstoðar á bráðamóttöku Landspítala vegna heimilisofbeldis, líkamsárása eða annarra áfalla, þar er ekki bið eftir þjónustu. Þriðja þjónustuleiðin er meðferð við áfallastreituröskun, sú þjónusta er veitt í gegnum biðlista sem fagaðilar vísa á. Sá biðlisti er langur og heldur áfram að lengjast vegna mikillar eftirspurnar eftir þjónustunni.

Agnes Björg.jpg

Agnes Björg Tryggvadóttir, sálfræðingur og teymisstjóri áfallateymis Landspítalans

„Þar er mjög löng bið, að minnsta kosti eitt ár eins og staðan er núna, en biðtíminn er þó aðeins misjafn eftir forgangsröðun mála,“ segir Agnes. Ástæðan er aukin eftirspurn eftir MeToo-byltinguna og skortur á starfsfólki. „Við sjáum mjög skýran mun fyrir og eftir janúar 2018. MeToo-byltingin fer í hámæli haustið 2017. Svo í janúar þá tvöfaldast beiðnirnar úr 4-5 í 11-12 á mánuði. Það eru bara þær beiðnir sem við samþykkjum. Ég átti von á það yrði kúfur á þessu, en þessi fjölgun hefur haldist síðan þá.“

Í dag starfa fjórir í teyminu. „Við vinnum í takt við þá mönnun sem við erum með. Bráðaþjónustan er í forgangi því þar höfum við tækifæri til að koma í veg fyrir langtímaafleiðingar áfalla. Það hefur einnig verið aukning á Neyðarmóttökunni á síðastliðnum árum og sú aukning skilar sér líka til sálfræðiþjónustu Neyðarmóttökunnar,“ segir Agnes

Stöðugildunum var fækkað um eitt á sama tíma og eftirspurnin jókst í byrjun árs 2018. „Eygló Harðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, fjármagnaði eitt stöðugildi á árunum 2015 til 2016 og Þorsteinn Víglundsson, þáverandi félagsmálaráðherra, hélt verkefninu áfram og fjármagnaði eitt stöðugildi árið 2017. Það var sérstaklega til að bregðast við fólki sem var að takast á við áfallastreituröskun eftir ofbeldi,“ segir Agnes. Árið 2018 gekk illa að fá svör. „Í fyrra fáum við þær upplýsingar að þetta sé komið inn á borð heilbrigðisráðuneytisins. Þaðan höfum við því miður ekki fengið nein svör. Við skiljum ekki af hverju, við getum sýnt fram á mjög góðan árangur og mikla þörf.“

Það er fleira sem spilar inn í en MeToo-byltingin. „Það er aukin vitneskja og umræða, bæði almennt og meðal fagfólks, um afleiðingar áfalla. Þær geta verið langvarandi. Svo þegar fólk er loks tilbúið að takast á við áfallið þá viljum við ekki láta það bíða svona lengi,“ segir Agnes. „Okkur vantar verulega fleiri stöðugildi því við erum búin að byggja upp mjög gott teymi sem er að skila mjög góðum árangri. Þetta þarf að vera vaxandi þjónusta.“

Agnes undirstrikar að ekki allir sem lendi í áföllum þurfi á meðferð að halda. „Flestir lenda í áfalli á sinni lífsleið og flestir jafna sig með eðlilegum hætti,“ segir Agnes. „Margir sem koma til okkar eru með mjög flókna áfallasögu sem þarf að greiða úr. Fólk hefur lifað lífi sínu með áfallastreitu en hefur forðast að horfast í augu við það. Þegar það er tilbúið til að vinna með afleiðingar áfalls er mikilvægt að við getum gripið þann hóp. Þar er tiltölulega góður meðferðar­árangur.“

Snjóflóð getur valdið áfallastreituröskun

Áfallateymið fær til sín breiðan hóp fólks sem glímir við áfallastreituröskun og vill Agnes ekki útiloka að snjóflóðið á Flateyri í vikunni kunni að vekja upp áfallastreitueinkenni tengd snjóflóðunum skelfilegu árið 1995.

„Það var miklu minni þekking á þessu á sínum tíma. Ef fólk þarna úti telur að það gæti verið með áfallastreituröskun eftir snjóflóðin þá hvet ég það til að leita til fagaðila. Við viljum stytta þjáninguna og mikilvægt er að hafa í huga að hægt er að vinna úr áfallinu.“