Gardar Örn Úlfarsson
Mánudagur 1. febrúar 2021
19.00 GMT

Her Mjanmar hefur tekið völd í landinu af lýð­ræðis­­lega kjörinni stjórn for­sætis­ráð­herrans Aung San Suu Kyi, sem hlaut friðar­verð­­laun Nóbels árið 1991 fyrir bar­áttu fyrir lýð­ræðis­­legra stjórnar­fari í heima­landi sínu. Hún hefur verið færð í varð­hald á­­samt öðrum stjórnar­­með­limum, meðal annars for­­setanum Win Myint. Talið er að æðsti yfir­­­maður hersins, Min Aung Hla­ing, fari nú með stjórn landsins. Herinn hefur lýst yfir neyðar­á­standi næsta árið en hvort það vari lengur mun tíminn leiða í ljós.

Núverandi leiðtogi Mjanmar Min Aung Hla­ing og fyrrverandi forsætisráðherrann Aung San Suu Kyi árið 2015.
Fréttablaðið/EPA
Win Myint, fyrrverandi forseti Mjanmar.
Fréttablaðið/EPA

Sam­­skipta­­kerfi landsins hafa að mestu legið niðri frá því að valda­ránið hófst í morgun. Far­­síma­­kerfi þeirra fjögurra sím­­fyrir­­­tækja sem starfa í landinu eru ó­­­virk, inter­net­að­­gangur hefur verið mjög lé­­legur og eina sjón­­varps­­stöðin sem enn sendir út er sjón­­varps­­stöð hersins.

Talið er að valda­ránið sé af­­leiðing þingkosninga sem fram fóru 8. nóvember. Þar vann flokkur Aung San Suu Kyi stór­­sigur, hlaut 396 sæti af 476. Flokkur hersins hlaut einungis 33 sæti. Herinn sætti sig ekki við þessa niður­­­stöðu og taldi brögð verið í tafli. Kosninga­yfir­­völd landsins höfnuðu ein­­dregið þessum að­­dráttunum hersins. Er­­lendir kosninga­­eftir­­lits­­aðilar viður­­kenndu að ein­hver vand­­kvæði hafi verið í fram­­kvæmd kosninganna en þau hafi engin á­hrif haft á niður­­­stöðuna. Valda­ránið var framið einungis nokkrum klukku­­stundum áður en nýtt þing átti að funda í fyrsta sinn frá kosningum í nóvember.

Mörg ríki lýst á­hyggjum af á­standinu

Orð­rómar um valda­ránið fóru hátt í að­­draganda þess og lýstu Frakk­land, fleiri ríki Evrópu­­sam­bandsins og Sam­einuðu þjóðanna á­hyggjum sínum af á­standinu skömmu fyrir valda­ránið. Joe Biden Banda­­ríkja­­for­­seti hefur fengið upp­­­lýsingar um á­standið frá þjóðar­­öryggis­ráð­gjafa sínum Jake Sullivan. Í yfir­­­lýsingu frá Hvíta húsinu sagði að banda­rísk yfir­­völd væru al­­gjör­­lega and­­snúin að­­gerðum hersins, þetta væri á­­fall fyrir lýð­ræðis­­lega þróun í Mjanmar og Bandaríkin myndu hiklaust grípa til að­­gerða gegn þeim sem bæru á­byrgð á valdaráninu ef ekki yrði snúið af þessari veg­­ferð.

Hver við­­brögð al­­mennings verða við valda­ráninu er ó­­­ljóst á þessari stundu. Bæði and­­stæðingar þess og stuðnings­­menn hafa farið á götur borga landsins, þó einkum stuðningsmenn þess. Þó hefur enn ekki orðið vart við meiri­háttar mót­­mæli í landinu.

Stuðnings­fólk valda­ránins á götum borgarinnar Y­angon í dag.
Fréttablaðið/EPA
And­stæðingar valda­ránsins hafa komið sama víða í Taí­landi í dag til að mót­mæla því.
Fréttablaðið/AFP

Mjanmar laut stjórnar hersins frá 1962 til 2011, eftir að hafa verið lýð­ræði eftir að hafa hlotið sjálf­­stæði frá Bretum árið 1948. Fjórum árum seinna tók herinn völd þar en raun­veru­­legt ein­ræði hans árið hófst 1962. Þó voru haldnar kosningar, og þegnum veittur réttur til að bjóða sig fram í þeim þó að herinn héldi í raun fast um stjórnar­­taumana.

Eftir kosningar 2010 var her­­foringja­­stjórnin leyst upp og árið 2011 tók við, að nafninu til að minnsta kosti, lýð­ræðis­­lega kosin stjórn undir stjórn flokks hlið­hollum hernum. Í þingkosningum árið 2015 hlaut Aung San Suu Kyi og flokkur hennar stóran hluta at­­kvæða og 2016 tók stjórn hennar við. Suu Kyi hafði dvalið í stofu­fangelsi í landinu í meira en 15 ár. Þar sem eigin­­maður hennar, Bretinn Michael Aris sem lést árið 1999, og börn hennar fæddust utan Mjanmar var henni ó­­heimilt að taka við em­bætti for­­seta landsins samkvæmt stjórnarskrá landsins og varð í staðinn for­­sætis­ráð­herra. Þrátt fyrir að lýð­ræðis­­leg stjórn hafi tekið við völdum hélt herinn enn fast um stjórnar­­taumana á mörgum sviðum, einkum í varnar­­málum.

Her­menn á götum höfuð­borgarinnar Naypyitaw í dag.
Fréttablaðið/EPA

Her Mjanmar hefur auðgast mjög með ýmsum leiðum gegnum árin. Talið er að hann standi fyrir um­­fangs­­miklum fyrir­­­tækja­­rekstri og starfræki ekki færri en 140 fyrir­­­tæki. Þetta gerir hernum kleift að afla sér tekna án nokkurs eftir­­lits frá stjórn­völdum. Sendi­­nefnd frá Sam­einuðu þjóðunum sem sótti Mjanmar heim árið 2019 lýsti þá yfir að án utan­­að­komandi eftir­­lits með fjár­­málum hersins væri honum kleift að starfa al­­gjör­­lega utan við hið hefð­bundna stjórn­­kerfi landsins. Þetta sjálfstæða fjár­­streymi gerði að verkum að herinn gæti nánast gert það sem honum sýndist og framið mann­réttinda­brot í krafti sterkrar fjár­hags­­stöðu sinnar.

Meðal þeirra að­­gerða sem herinn hefur ráðist í eru grimmdar­­verk gegn minni­hluta Rohingya múslima sem búa í Rak­hine-ríki við vestur­­strönd Mjanmar. Herinn hefur verið sakaður, meðal annars af Sam­einuðu þjóðunum, um að fremja gegn þeim þjóð­ernis­hreinsanir, stunda skipu­lagðar nauðganir og fjölda­morð. Fjöldi Rohingya hefur flúið land, einkum til ná­granna­­ríkisins Bangla­dess. Talið er að um 400 þúsund Rohingya hafi flúið heimili sín, bæði úr landi og fjöldi er á ver­­gangi innan Mjanmar.

Rohyngia flóttamenn í flóttamannabúðum í Bangla­dess árið 2018.
Fréttablaðið/EPA

Þegar Aung San Suu Kyi tók við völdum 2016 bundu margir vonir við að að­­gerðir hersins gegn þjóðflokki Rohingya myndi linna en sú varð ekki raunin. Al­­þjóða­­sam­­fé­lagið gekk hart fram gegn Suu Kyi vegna málsins og var hún harð­­lega gagn­rýnd fyrir aðgerðarleysi. Þó segja sumir stjórn­­mála­­skýr­endur að sú gagn­rýni hafi ekki átt fullan rétt á sér, þrátt fyrir að hún væri rétti­­lega for­­sætis­ráð­herra hefði hún engin völd yfir hernum eða að­­gerðum hans.

Athugasemdir