Heil­brigðis­ráð­herra hefur að sögn land­læknis tekið vel í til­lögur hennar um að skipaðir verði tveir þver­fag­legir hópar innan ráðu­neytisins til að fylgjast með bæði lýð­heilsu og geð­heil­brigði í kórónu­veirufar­aldrinum. Frá þessu greindi Alma D. Möller, land­læknir, á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna fyrr í dag.

Hún sagði frá því að vel hafi verið fylgst með heilsu og líðan al­mennings í fyrstu bylgju og að nú sé verið að skoða niður­stöður mælinga frá því í októ­ber. Hún segir að það séu ein­hverjar á­hyggjur af því að líðan fólks geti breyst þegar far­aldurinn dregst á landinn og varaði við því að lang­tíma­á­hrif væru ekki þekkt.

Hún taldi upp langan lista mögu­legra lang­tíma­á­hrifa sem gætu verið al­menn verri heilsu­hegðun fólks tengt minni hreyfingu, ó­hollara matar­æðis og meiri streitu. Hún nefndi einnig það aukna álag sem er á heil­brigðis­þjónustu al­mennt og að fólk veigri sér í meiri mæli við að leita sér þjónustu. Þá talaði hún einnig um þau hafi á­hyggjur af fé­lags­legri ein­angrun, of­beldi, kvíða og auknum ó­jöfnuði. Þá geti aukið at­vinnu­leysi og fá­tækt haft slæm á­hrif líka.

Alma hvatti al­menning á fundinum til að hlúa vel að bæði and­legri og líkam­legri heilsu, að gæta að góðum svefni og næringu. Hún benti á að hægt væri að finna góðar upp­lýsingar um bæði og bættar leiðir inn á Heilsu­veru og vef em­bættis land­læknis.

„Á­standið tekur á marga og þá er mikil­vægt að hlúa að sjálfum sér,“ sagði Alma á fundi upp­lýsinga­varna.

Hún á­rétti einnig mikil­vægi þess að taka D víta­mín dag­lega og að huga vel að geð­rækt.

Fjögur smit

Alls greindust fjórir með kórónuveiruna í gær og voru af þeim tveir í sóttkví.