Fólk sem smitast af COVID-19 glímir við hugræn og hegðunarvandamál í að minnsta tvo mánuði eftir útskrift af spítala. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem kynnt var á sjöunda þingi Evrópsku taugafræðiakademíunnar. Rannsóknin var birt í vísindaritinu Neurology.
Vandamálin tengjast minni, rýmisgreind og meðtöku upplýsinga og greindust hjá sjúklingum sem rannsakaðir voru átta vikum eftir að sjúkrahúsdvöl lauk. Auk þess leiddi rannsóknin í ljós að einn af hverjum fimm sem fengu COVID greindu frá því að þeir væru haldnir áfallastreituröskun og 16 prósent þeirra glímdu við þunglyndi.
Rannsóknin var gerð á Ítalíu og fólst í því að prófaðir voru vitsmunalegir eiginleikar fólks kannaðir og það sent í segulómskoðun tveimur mánuðum eftir að COVID-einkenni voru greind.

Meira en helmingur þátttakenda fann fyrir hugrænum erfiðleikum; 16 prósent áttu erfitt með þætti á borð við að meðtaka upplýsingar og að rifja upp hluti; 6 prósent áttu erfitt sjónræna skynjun á borð við að meta lengd og sjá andstæður og fjórðungur glímdi við einhvers konar sambland af þessum vandamálum.
Athygli vakti að því yngra sem fólk var, því meiri líkur voru á hugrænum og sálsýkisfræðilegum vandamálum en meirihluti þátttakenda undir 50 ára aldri glímdi við einhverja erfiðleika af þessu tagi. Sé horft til þátttakenda í heild kemur í ljós að því verr sem COVID-19 lagðist á öndunarfæri fólks því meiri líkur voru á hugrænum vandamálum.
Þegar ástand þátttakenda var kannað eftir tíu mánuði frá því að einkenni greindust kom í ljós að fjöldi þeirra sem glímdi við vitsmunalega erfiðleika var kominn úr 53 prósentum í 36 en tíðni áfallastreituröskunar og þunglyndis minnkaði lítið.

„Rannsóknin hefur staðfest umtalsverð áhrif COVID-19 á vandamál tengd hugrænni skynjun og hegðun, sem vara í nokkra mánuði eftir að smitaðir jafna sig,“ segir Massimo Filippi, prófessor við Vita-Salute San Raffaele háskólann í Mílan á Ítalíu, sem fór fyrir rannsókninni.
„Það sem vekur einkum áhyggjur eru breytingar á hugrænni skynjun sem getur gert fólki erfitt fyrir að einbeita sér, skipuleggja, hugsa sveigjanlega og muna hluti. Þessi einkenni fundust hjá þremur af hverjum fjórum yngri sjúklingum,“ segir hann enn fremur.
„Þörf er bæði á langtíma og stærri rannsóknum til að fylgja þessari eftir en hún gefur vísbendingar um að COVID-19 tengist umtalsverðum hugrænum og sálsýkisfræðilegum vandamálum. Viðeigandi eftirfylgni og meðferð eru lykilatriði til að tryggja að sjúklingar sem lögðust inn vegna COVID fái þann stuðning sem þeir þurfa til að meðhöndla vandamálin,“ segir Dr. Elisa Canu sem vann að rannsókninni.
