Ísland á langt í land með að ná markmiðum sínum um í loftgæðamálum ef marka má nýja skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu. Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun hjá íslensku umhverfisstofnuninni segir að almennt séu loftgæði hér góð í samanburði við önnur Evrópulönd en slæmir dagar geti haft mikil áhrif.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Umhverfisstofnun Evrópu, EEA, áætli að rekja megi 60 ótímabær dauðsföll árið 2018 til útblástursmengunar hér á landi.

Þorsteinn segir töluna ekki koma sér sérstaklega á óvart. Talan sé sú sama og hafi verið gefin út í fyrra og hafi lengi verið á bilinu 60 til 80 áætluð dauðsföll á ári. Hann bætir við að talan komi ekki frá heilbrigðiskerfinu heldur sé um að ræða útreiknað gildi sem byggi á reiknilíkani. Líkanið taki mið af niðurstöðum rannsókna og mengunarmælingum í Evrópu.

„Talan er kannski gróft mat en hún gefur okkur vísbendingu um það hvort við séum að fara upp eða niður.“

Fór fimmtán sinnum yfir heilsuverndarmörk í fyrra

Samkvæmt tólf ára áætlun íslenskra stjórnvalda um bætt loftgæði er stefnt að því að fækka árlegum ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi í færri en fimm fyrir árið 2029.

Þá er einnig stefnt að því að fækka árlegum fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar í núll fyrir árslok 2029.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur fór svifryk fimmtán sinnum yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík á síðasta ári. Þá hefur það gerst átta sinnum það sem af er ári samkvæmt óyfirförunum tölum. 

Því er ljóst að nokkuð langt er í land áður en stjórnvöld ná þeim markmiðum sem útlistuð eru í áðurnefndri áætlun umhverfisráðherra sem var síðast uppfærð árið 2017.

Þorsteinn Jóhannsson , sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.
Fréttablaðið/Ernir

Slæmir dagar komi inn á milli

Þorsteinn segir að Ísland hafi lengi prýtt efstu sæti á lista Umhverfisstofnunar Evrópu yfir þau ríki sem hafi einna minnstan styrk mengunarefna og fæst ótímabær dauðsföll vegna loftmengunar.

„Þannig að það eru góð loftgæði hér en þrátt fyrir það koma slæmir dagar, jafnvel mjög slæmir inn á milli.“

Þar vísar hann meðal annars til síðasta miðvikudags þar sem svifryk á höfuðborgarsvæðinu mældist mjög hátt. Þá hafi mælst hátt gildi niturdíoxíðs í gær sem birtist víða í gulleitri slikju. Niturdíoxíð veldur meðal annars ertingu í lungum og öndunarvegi . 

Þorsteinn segir að auk öndunarfærasjúkdóma geti loftmengun almennt ýtt undir tíðni hjarta- og æðasjúkdóma.

„Við erum ekki að missa ungt og hraust fólk úr loftmengun heldur frekar fólk sem er komið yfir miðjan aldur og er eitthvað veikt fyrir, með undirliggjandi sjúkdóm, astma, reykir svo kannski, fær svo flensu og ef það kemur svo slæmur mengunardagur ofan í það þá getur það kannski gert útslagið.“

Þá bætir hann við að rannsóknir sem hafi verið gerðar í stórborgum bendi til að mikil loftmengun auki almennt dánartíðni og það sé ekki endilega fólk sem sé komið á gjörgæsludeild sem verði einna helst fyrir barðinu.

„Segjum að meðaldánartíðni sé 100 og svo kemur mikil loftmengun og hún eykst kannski upp í 130 og svo þegar mengunin fer niður aftur þá fer dánartíðnin samt aftur niður í 100. Það er ekki búið að grisja þá sem hefðu dáið næstu tvær vikur, dánartíðnin fer ekki niður fyrir meðaltalið svo þetta er bara hrein viðbót.“

Þá segir hann að íslenskar rannsóknir hafi skoðað hvort aukning sjáist í innlögnum á spítala eða sjúkrahúsgreiningum á dögum þar sem svifryk mælist mikið. Til að mynda hafi niðurstöður rannsóknar á vegum Sólveigar Halldórsdóttur, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun bent til að skammtímahækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs tengist bráðakomum á spítala vegna hjartasjúkdóma, einkum vegna gáttatifs, gáttaflökts og annarra hjartsláttartruflana.

Fínna svifryk hættulegra fyrir heilsuna

Að sögn Þorsteins er að mörgu að huga í þessum efnum en vissar tegundir svifryks séu verri en aðrar.

„Svifryk er mishættulegt eftir kornastærð og efnainnihaldi sem fer svolítið eftir uppruna. Það má segja að því fínna sem það er því verra er það fyrir heilsuna.“

Minni korn fari dýpra niður í lungun og því dýpra sem þau fara því meiri áhrif geti þau haft á heilsu manna.

„Minnstu kornin sem eru kannski komin niður fyrir eitt míkron komast jafnvel í gegnum lungnablöðrurnar og eru þá komin út í blóðrásina þar sem þau geta hugsanlega haft áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma. Sótið sem kemur úr útblæstri bíla er kannski versta svifrykið, af því leyti að það er það fínt en á höfuðborgarsvæðinu er það sem við köllum vegryk í mestu magni.“

Þar sé að stórum hluta um að ræða slitið malbik sem þyrlist upp af yfirborði gatna.

Notkun nagladekkja hafi mikið að segja

„Þessir stóru toppar eins og voru hérna síðasta miðvikudag eru fyrst og fremst vegna vegryks. Það er aðeins öðruvísi heldur en útblástursrykið sem fer út í loftið um leið og bílinn keyrir. Ef það er snjór eða bleyta þá þyrlast vegrykið ekki upp heldur safnast í drullupoka á götunum. Það er kannski búið að þorna í mengunarbanka í tvær vikur og svo þornar það og þyrlast allt upp á einum degi.“

Þorsteinn segir að notkun nagladekkja sé stærsti einstaki áhrifaþátturinn þegar kemur að sliti gatna og þar með magni vegryks. Rannsóknir bendi gróflega til þess að nagladekk valdi tuttugu sinnum og jafnvel allt að fjörutíu sinnum meira sliti á götum en ónelgd dekk.

„Ef við tökum varfærnari töluna og segjum að 5% bíla væru á nöglum þá væru þessi 5% að slíta jafnmikið og hin 95%, þannig að það skiptir verulega miklu máli hvað það eru margir á nöglum.“