Eld­gosið í Geldinga­dölum hefur nú staðið yfir í mánuð og að því til­efni sló blaða­maður Frétta­blaðsins á þráðinn hjá Kristínu Jóns­dóttur, hóp­stjóra náttúru­vá­r­vöktunar hjá Veður­stofu Ís­lands. Að­spurð um hvort eitt­hvað lát sé á gosinu eða hvort það gæti staðið yfir um ó­kominn tíma segir Kristín:

„Já, það er þessi milljón dollara spurning. Maður hefði nú kannski búist við því að þetta stæði yfir í nokkrar vikur, þetta virðist vera mjög stöðugt gos en það er voða­lega erfitt að spá fyrir um fram­haldið.“

Kristín segir fram­leiðslu gossins hafa verið nokkuð línu­lega og ekki hafi verið um miklar sveiflur að ræða í því sam­hengi.

„Þetta virðist vera mjög stöðug fram­leiðsla og þó að það hafi verið að opnast nýjar sprungur þá er eins og þetta sé allt að koma úr sömu slöngunni ef við getum sagt sem svo,“ segir Kristín.

Að­spurð hvort að gosið gæti hætt fyrir­vara­laust segist Kristín telja það mjög ó­lík­legt og lík­legri væri að það drægi smám saman úr fram­leiðni þess áður en það hætti. Hún segir að dæmi séu um að gos­rásir stíflist en ekki séu komin fram nein merki um að slíkt sé að gerast í Geldinga­dölum.

„Það er lang­lík­legast miðað við hvað þetta hefur verið stöðugt að þetta haldi alla­vega á­fram í ein­hverjar vikur í við­bót, kannski í ein­hverja mánuði,“ segir Kristín.

Spáðu fyrir um nýja gos­sprungu

Að­spurð um að hverju nýjustu rann­sóknir á gosinu snúi segir Kristín það vera mjög víð­tækt en meðal þess sem er stöðugt verið að fylgjast með séu jarð­skjálfta­mælingar, gass­mælingar, efna­mælingar, hraun­flæði og fjöldi berg­tegunda þeirra sem komi upp. Hún segir að ein­stök staða hafi komið upp í gær þegar vísinda­mönnum tókst að spá fyrir um opnun nýrrar gos­sprungu:

„Í gær gerðum við eitt­hvað sem við höfum ekki gert áður að við hrein­lega spáðum fyrir um nýja gos­opnun. Það sem við sáum var að jarð­skjálfta­óróinn á þeim jarð­skjálfta­mælum sem eru næst gosinu féll mjög skyndi­lega og svo nokkrum klukku­tímum síðar opnaðist ný gos­sprunga. Í gær þá var gefin út við­vörun þegar við sáum að hugsan­lega myndi ný sprunga opnast og hún gerði það svo. Hún var ekki mikil eða stór en engu að síður þá var þetta rétt spá,“ segir Kristín.

Kristín segir gosið í Geldinga­dölum hafa kennt okkur heil­margt nýtt miðað við fyrri gos sem geisað hafa hér á landi á undan­förnum árum svo sem gosið í Holu­hrauni. Að­dragandi þess hafi til að mynda verið mjög sér­stakur.

„Það er þessi svaka­lega mikla skjálfta­virkni þegar kviku­gangurinn er að myndast og svo dregur úr henni og þegar fer að draga úr öllum merkjum þá fer gosið í gang sem er náttúr­lega stór­merki­legt. Svo náttúr­lega er það sér­stakt að það sé yfir­leitt gos á Reykja­nes­skaganum, það eru komin alveg sjö, átta hundruð ár síðan síðast var eld­gos þarna. En svo er það líka merki­legt að þetta skuli vera með svona djúpa upp­sprettu. Við erum að reyna að skilja þessa ferla, hvað er það sem gerist í að­draganda eld­gossins og við erum búin að sjá í­trekuð kviku­inn­skot á Reykja­nes­skaganum til marks um að hann sé að lifna við en það þarf að skoða alla þessa sögu í sam­hengi,“ segir Kristín.

Þá segist hún vera mjög á­nægð með það sam­starf sem myndast hefur á milli Veður­stofunnar, vísinda­stofnana og við­bragðs­aðila á borð við björgunar­sveitir sem verið hafa að störfum við gos­stöðvarnar.

„Í rauninni hefur gengið alveg rosa­lega vel og við viljum biðla til fólks að halda á­fram að taka mark á fyrir­mælum við­bragðs­aðila varðandi að­gengi að svæðinu. Það þarf að koma fram við svona gos af virðingu,“ segir Kristín að lokum.

Fréttablaðið/Ernir