Aðeins 32 prósent landsmanna ætla sér að borða skötu í ár. Það er aðeins meira en tvö ár áður en töluvert minna en það var fyrir heimsfaraldur en þá var hlutfallið um 37 prósent. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu.
Ef litið er til ýmissa þátta má sjá nokkurn mun eftir aldri og búsetu en allt að helmingur þeirra sem eru 60 ára og eldri ætla sér í skötu á meðan aðeins 16 prósent þeirra sem eru á aldrinum 18 til 29 ára ætla sér í hana.

Þegar litið er til búsetu ætla fæstir sér að borða skötu á Austurlandi eða aðeins 20 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu ætlar fjórðungur að fá sér skötu. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hæst hlutfallið en þar ætla 59 prósent að fá sér skötu.
Hvað varðar jólamatinn þá er hamborgarhryggurinn langvinsælastur en 43 prósent landsmanna ætla sér að gæða sér á honum og um 64 prósent ætla sér að fá sér hangikjöt á jóladag, samkvæmt hefð. Á aðfangadag er lambakjötið svo í öðru sæti en það er þó aðeins þrettán prósent sem ætla sér í það.
Ef skoðað er hlutfall þeirra sem ætla að fá sér grænmetisfæði þá er það í ár fjögur prósent og hefur verið í kringum það síðustu fjögur árin.
