Flest börn sem hafa verið inn­rituð í leik­skóla í Reykja­vík á þessu ári hafa fengið leik­skóla­pláss í því hverfi sem lög­heimili þeirra er skráð í. Af þeim börnum sem eru í leik­skóla utan hverfis er meiri­hluti í leik­skóla í hverfi sem liggur að þeirra. 223 börn eru í leik­skóla utan hverfis lög­heimilis.

Af 1.623 börnum sem hafa verið inn­rituð í leik­skóla í Reykja­vík frá 1. mars á þessu ári eru 223, eða um 13 prósent, í leik­skóla utan þess hverfis þar sem lög­heimili þeirra er skráð. Um 87 prósent eru því í leik­skóla í sínu hverfi. Frá þessu er greint í svari Reykja­víkur­borgar til Frétta­blaðsins en spurt var um ýmis mál tengd inn­ritun í leik­skóla.

Á kortinu sem fylgir að ofan má sjá hversu mörg börn eru í leik­skóla í hverju hverfi sem ekki eru með skráð lög­heimili þar. Þau hverfi sem eru með flest börn sem eru utan hverfis lög­heimilis eru Ár­bær og Norð­linga­holt, þar sem 48 börn eru utan hverfis og Hlíðar þar sem 55 börn eru sem ekki eru með skráð lög­heimili. Þar eru flest börnin í nær­liggjandi hverfum í leik­skóla en í til­felli Ár­bæjar og Norð­linga­holts er meiri­hlutinn að koma frekar langt frá, eða frá Háa­leiti og Bú­stöðum og úr Vestur­bænum.

Sum börn hafa ekki fengið pláss í sínu hverfi en sumir foreldrar kjósa að hafa börnin í leikskóla utan síns hverfis.
Fréttablaðið/Grafík

Í leikskóli í hverfi nálægt sínu hverfi

Ef hverfin eru skoðuð með til­liti til þess hvar börnin sem ekki fengu pláss í hverfinu sínu eru, má sjá að 61 barn í Háa­leiti og Bú­stöðum er ekki í leik­skóla í sínu hverfi, í Laugar­dal er um að ræða 38 börn en fæst eru þau í Árbæ og Norð­linga­holti, þar sem að­eins fimm börn eru í leik­skóla utan síns hverfis.

Af þessu 61 barni sem ekki fékk vistun í Háa­leiti og Bú­stöðum má sjá að um helmingur er með vistun í Hlíðum eða Laugar­dal.
Þessi 1.623 börn eru ýmist að hefja leik­skóla­dvöl, koma úr sjálf­stætt starfandi ung­barna­leik­skólum eða að fara á milli borgar­rekinna skóla. Þau eru flest fædd á síðari hluta ársins 2019 eða fyrri hluta árs 2020. Alls voru 643 börn með flutnings­um­sókn en meðal þeirra eru börn sem voru að koma frá sjálf­stætt reknum ung­barna­leik­skólum yfir í borgar­rekna.

Þegar for­eldrar sækja um leik­skóla­vist geta þau valið allt frá einum upp í fimm leik­skólum og fram kemur í svari Reykja­víkur­borgar að for­eldrar 197 barna sam­þykktu boð frá skóla sem var í 2. vali, for­eldrar 84 barna sam­þykktu boð frá skóla sem var í 3. vali, for­eldrar 44 barna sam­þykktu boð frá skóla sem var í 4. vali og for­eldrar 26 barna sam­þykktu boð frá skóla sem var í 5. vali. Það eru alls for­eldrar 351 barns eða um 22 prósent þeirra barna sem fengu boð um vistun.