Langar raðir hafa myndast á mörgum kjörstöðum í Svíþjóð, þar sem landsmenn kjósa nú nýtt þing. Búist er við spennandi kosningum þar sem lítill munur mælist milli kosningabandalags núverandi stjórnar, sem leidd er af Magdalenu Andersson og Jafnaðarmannaflokknum, og bandalags hægriflokkanna, sem vinna nú í fyrsta sinn ásamt flokki Svíþjóðardemókrata.

Samkvæmt umfjöllun sænska ríkismiðilsins SVT er óttast að raðirnar sem myndast hafa fyrir utan marga kjörstaði, meðal annars í Uppsölum, Södertälje, Gautaborg og Stokkhólmi, kunni að tefja birtingu fyrstu talninga á atkvæðunum í kvöld.

Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg, sem náði kosningaaldri í fyrra, kaus í fyrsta skipti í þessum kosningum. „Lýðræði gildir ekki bara á kjördegi, heldur alla daga,“ skrifaði hún á Twitter-síðu sinni. „En okkur sem njótum þeirra forréttinda að geta kosið ber skylda til að gera það. Þegar þú kýst skaltu kjósa með einingu og samkennd – og hugsa til þeirra sem minna mega sín.“