Löng bílaröð hefur verið við Landspítalann í Fossvogi í dag þar sem sýnataka á Covid-19 göngudeildinni fer fram.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans segir sýnatökuna vera fyrir einstaklinga sem eru kallaðir inn vegna einkenna og fyrir starfsmenn Landspítalans.

„Á covid göngudeildinni tökum við sýni hjá fólki með einkenni og höfum sömuleiðis sjálf skimað okkar fólk, þangað fer okkar starfsfólk sem þarf að fara í skimun. Þessi mikla röð í dag er að öllum líkindum okkar mannskapur," segir Anna Sigrún.

Viðbragðsstjórn og farsóttarnefnd Landspítalans ákvað í dag að færa spítalann á hættustig vegna smita meðal starfsfólks spítalans. Annars vegar er um smit í skurðlækningaþjónustu að ræða og hins vegar í Skaftahlíð 24, þar sem skrifstofur og kennslurými eru til húsa.

Aldrei fleiri skimaðir hjá göngudeildinni

Alls starfa um 6.000 manns hjá spítalanum en gert er ráð fyrir að 200 starfsmenn verði í úrvinnslusóttkví þar til niðurstöður liggja fyrir.

„Allir sem eru að fara núna er í sóttkví eru annað hvort í úrvinnslu sóttkví eða hefðbundinni sóttkví. Við vonumst til að geta skimað alla 200 starfsmennina í dag og klárað þetta eins fljótt og hægt er. Það er smitrakning í gangi hjá okkur þannig það gæti alltaf verið að það komi upp fleiri smit og að fleiri starfsmenn verði skimaðir á morgun. Það er ómögulegt að segja eins og er, segir Anna Sigrún að lokum.

Fréttablaðið/ Garðar Örn
Fréttablaðið/ Garðar Örn