Sig­ríður Dóra Magnús­dóttir, fram­kvæmda­stjóri lækninga hjá heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins, segir að fram­kvæmd hrað­prófa gangi vel þrátt fyrir að langar raðir hafa myndast. „Þetta gengur vel þótt þetta líti ógn­vekjandi út,“ segir Sig­ríður Dóra í samtali við Fréttablaðið.

Met­fjöldi fór hrað­próf í gær bæði hjá heilsu­gæslunni og hjá öðrum hrað­prófs­stöðum. Það stefnir í annan stóran dag miðað við raðirnar.

„Ég er ekki búin að fá tölurnar í dag en ég veit að þetta gengur mjög hratt. Fólk bara gengur sér til hita í röðinni. Það er alveg passað upp á það,“ segir Sig­ríður Dóra í sam­tali við Frétta­blaðið.

Spurð um hvort heilsu­gæslan hafi mann­skap í að sinna þessum fjölda, segir Sig­ríður að það sé alltaf passað upp á það og bætt í mann­skapinn eftir þörfum.

Lang­flestir skrá sig á undan og gefur það heilsu­gæslunni góða mynd af fjöldanum.

„Það eru alltaf ein­hverjir sem koma án þess að skrá sig og skrá sig á staðnum en lang­flestir eru búnir að skrá sig á undan og við mælum ein­dregið til þess.“

Metfjöldi fór í hraðpróf í gær og stefnir í annan stóran dag í dag.
Fréttablaðið/Eyþór