Birgitta Jóns­dóttir, fyrrum þing­kona og stofnandi pírata, á sér þann draum að starfa aftur á Al­þingi. Ekki þó sem þing­maður.

„Ég fór að hugsa að mér hefur alltaf þótt vænt um stofnunina Al­þingi, þótt vænt um hug­myndina um Al­þingi eins og mér þykir vænt um hug­myndina um nýja stjórnar­skrá. Ég fór að hugsa hvað það væri skrýtið að það væri bara einn þing­frétta­ritari hér á landi, sem gerir líka ein­hverja mat­reiðslu­þætti og hefur tengsl við em­bættis­manna­kerfið,“ segir Birgitta í helgar­við­tali við Frétta­blaðið.

„Það var enginn niðri í þing­húsi nema þegar hálf­tími hálf­vitanna stóð yfir [um­ræður um störf þingsins] eins og fyrrum sam­flokks­maður minn kallaði það,“ bætir hún við.

„Það vantar ó­háðan þing­frétta­ritara þannig að ég er núna að fara að ganga í alla flokkana svo ég fái bréf frá þeim. Mig langar að vera rosa mikið niðri í þing­húsi, langar að tala við alla þessa nýju þing­menn, vera líka með visst að­hald. Það er ekki bara það sem gerist innan ráðu­neytanna sem skiptir máli.“

Sér hún fyrir sér vett­vang til að miðla störfum þing­frétta­ritara?

„Ég er að byrja að ræða við rit­stjóra og er að fá lánaða dóm­greind. Það væri best að gera þetta í sam­starfi við fjöl­miðil, ég á enn­þá gamlan blaða­manna­passa en veit ekki hvort hann er gildur enn­þá,“ segir Birgitta.