Ég hef alltaf verið umhverfisþenkjandi en í mastersnámi í Svíþjóð má segja að sápukúla sakleysis míns á því sviði hafi sprungið. Ég hafði verið í svo vernduðu umhverfi hér heima og ekki áttað mig almennilega á því hversu tengd hvert öðru við erum.

Það er manneskja sem býr til þessa vöru sem býr hinum megin á hnettinum sem á sína fjölskyldu og sögu og ætla ég að nota þetta einu sinni og henda svo?“ segir Sigríður Bylgja og bendir á plastmöppu sem hún hefur meðferðis með upplýsingum um verkefni sín: Tré lífsins og Lífsbókina.

Sigríður valdi sér meistaranám í mannvistfræði með áherslu á menningu, völd og sjálfbærni.

„Við tókum sjálfbærnihugtakið alveg sérstaklega fyrir.“ Áður hafði hún lokið grunnnámi í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst.

„Þar var áfangi um umhverfisstjórnmálafræði sem kveikti í mér. Ég sá í fyrsta sinn myndbönd frá plasteyjunni sem er á stærð við Texas og fékk sjokk eins og flestir fá þegar þeir sjá hræin af dýrunum sem hafa drepist þar, full af plasti.“


Örbirgðin hafði áhrif


Að loknu grunnnámi fór hún í fimm mánaða bakpokaferðalag um Suðaustur-Asíu. „Áður en ég fór í það ferðalag var stefnan tekin á meistaranám í hagfræði. Ég ætlaði bara að stofna fyrirtæki og verða rík. En það sljákkaði aðeins í mér eftir að hafa ferðast um þessi lönd og meðal annars unnið í sjálfboðastarfi í Taílandi.

Ég gat ekki annað en hugsað af hverju ég gæti ferðast eins og drottning á meðan örbirgðin væri alls staðar í kring. Þar ákvað ég að venda kvæði mínu í kross. Ég sótti um þverfaglegt nám í Lundi í Svíþjóð. Lýsing þess heillaði mig: umhverfi, samfélag, heimurinn okkar í dag, gagnrýnin hugsun, menning, völd og sjálfbærni. Ég hafði aldrei vitað hvað ég vildi verða, en þetta höfðaði til mín.“


Sigríður Bylgja segist í meistaranáminu hafa upplifað tilfinningarússíbana.

„Mér fannst ég hreinlega vitlaus! Áhersla var lögð á að fá nemendur frá sem flestum heimshornum og aðeins fimmtán teknir inn árlega svo mjög margir voru með bakgrunn í aktívisma. Þarna árið 2011 voru þau flest vegan og að „dumpster dive-a,“ segir Sigríður Bylgja og á við svokallað gáma­grams, þar sem leitað er ætra matvæla í ruslagámum stórverslana, en hvoru tveggja, veganismi og gáma­grams, var fjarstæðukennt í huga Sigríðar fyrir áratug.

„Þarna hófst mín vegferð í að læra meira. Okkur var kennt að líta lengra en innan boxins sem okkur hafði verið sýnt.“


Við lifum rosalega góðu lífi


Starfsnám í Belís í Mið-Ameríku hafði einnig töluverð áhrif.


„Þar stundaði bandarískt olíufyrirtæki að fara ólöglega inn á verndarsvæði frumbyggja. Við vorum þar til að meðal annars aðstoða frumbyggja við málsókn á hendur stjórnvöldum sem létu þetta viðgangast.

Það var gott fyrir mann að upplifa þetta og fá svolítið samhengi í það hvað við lifum rosalega góðu lífi. Það er ekkert skrítið að við hér séum haldin mikilli forréttindablindu enda upplifum við allt á eigin skinni og út frá okkar tengingum.“

Sigríður Bylgja viðurkennir að hafa upplifað töluvert vonleysi að námi loknu.

„Ég fór að hugsa: „Hvað ætlum við að gera? Hvernig ætlum við að díla við allt kerfið okkar og gera þennan heim betri fyrir okkur öll? Auðlindum jarðarinnar er ekki jafnt skipt og þeim ójöfnuði er viðhaldið kerfisbundið.“


Líkaminn bara umbúðir


Sigríður Bygja segist hafa lesið grein þar sem fjallað var um að kirkjugarðar höfuðborgarsvæðisins væru að fyllast.


„Ég fór þá að hugsa hvers vegna við værum að taka svona stórt landsvæði undir kirkjugarða. Hugsa sér allar auðlindirnar sem við erum að jarða?

Þetta eru flottar kistur sem við setjum umbúðirnar utan af fólkinu okkar í, enda líkami okkar ekkert annað en umbúðir. Geggjaðar kistur sem koma í flestum tilfellum utan úr heimi þar sem fólk hefur verið að setja þær saman úr tré sem búið er að höggva niður. Til hvers? Til að setja tvo og hálfan metra ofan í jörðina og grafa yfir og láta brotna niður á einhverjum árum?“

„Þetta eru flottar kistur sem við setjum umbúðirnar utan af fólkinu okkar í, enda líkami okkar ekkert annað en umbúðir."

Hún fór að upphugsa umhverfisvænni lausnir fyrir okkar hinstu hvílu.

„Ég hugsaði með mér að það væri náttúrlega geggjað ef hægt væri að gróðursetja fólk. Bálför er mikið sniðugri en hefðbundin jarðsetning að því leyti að það verður mikið minna úr okkur. Í mínum huga væri svo frábært ef við gætum bara gróðursett tré með öskunni.

Ég fór að skoða þetta og fann aðila í Bandaríkjunum sem var að selja lífræn duftker með fræi í og varð heilluð af þeirri hugmynd. Ég hafði samband við fyrirtækið og kannaði hvort ég gæti orðið dreifingaraðili, flutt kerin til Íslands og selt til útfara­rstofa.“


Lögin í kringum dauðann


Það var árið 2015 að Sigríður Bylgja átti fund með Hannesi Ottóssyni, ráðgjafa hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og kynnti hugmyndina.

„Hann benti mér á að skoða hvort þetta væri lögleg leið til greftrunar og fleiri atriði sem ég þyrfti að skoða.“

Skemmst er frá því að segja að Sigríður Bylgja komst fljótt að því að ekki er löglegt að gróðursetja ösku eins og hún vildi.

„Lagaramminn í kringum það að deyja er frumskógur. Það sem er leyfilegt í dag er að jarða lík í kistu í kirkjugarði, jarða öskuna í duftreit innan kirkjugarðs eða dreifa öskunni yfir haf eða óbyggðir, að því gefnu að þú sért búinn að sækja um leyfi til sýslumanns.


Þú mátt ekki dreifa öskunni hvar sem þú vilt, þú mátt ekki gróðursetja tré með öskunni og askan verður að vera sett niður innan kirkjugarðs. Ef þú ákveður að dreifa henni máttu ekki setja upp neinn minnisvarða, hvort sem það er tré eða eitthvað annað.“

Svona munu merkingarnar á trjánum líta út og QR kóðinn geymir heila sögu og myndir.

Hugmyndin var því ekki framkvæmanleg og til viðbótar kveða reglur á um að dýpt öskugrafar verði að vera í kringum einn metri. Óskin um að fræ myndi spretta upp úr slíku dýpi var því úr sögunni.

Bent á að stofna trúfélag

En Sigríður Bylgja ákvað að hugsa í lausnum og finna leiðir í gegnum fjölmörg lög og reglugerðir.

„Það var einmitt einn sem benti mér á að stofna trúfélag, því þannig gæti ég fengið grafreit þar sem ég mætti gróðursetja. Það var þó ekki það sem ég vildi gera. Það sem svíður í minni heildarmynd á þetta er að þegar við föllum frá þurfum við öll að enda hjá einu trúar- og lífsskoðunarfélagi.“

Hún tekur sérstaklega fram að hún sé alls ekki mótfallin þjóðkirkjunni heldur styðji hún frelsið til að velja sjálfur.

„Það eru yfir fimmtíu trúar- og lífsskoðunarfélög á Íslandi en það enda allir innan kirkjugarðs. Ef ekki innan kirkjugarðs þá geturðu valið um bálför sem er framkvæmd í ofnum sem hafa verið í gangi frá árinu 1948 og uppfylla ekki nútímaskilyrði og eru ekki búnir mengunarhreinsibúnaði.

Bálför er í dag einungis framkvæmd af bálstofunni í Fossvogi sem er rekin af Kirkjugörðum Reykjavíkur prófastsdæma, sem er einfaldlega ríkið. Okkar samfélag hefur breyst mikið á þessum 73 árum frá því bálstofan var opnuð og það er bara eðlilegt að það sé óháður aðili sem sjái um rekstur bálstofu.“

„Það eru yfir fimmtíu trúar- og lífsskoðunarfélög á Íslandi en það enda allir innan kirkjugarðs."

Sigríður Bylgja bendir á að vilji fólk ekki greftrun innan kirkjugarðs megi dreifa ösku yfir haf eða óbyggðir en þá sé ekki leyfilegt að reisa minnisvarða um þann látna.

„Fyrir þá sem eftir standa er það oft mikilvægt. Að hafa stað til að heimsækja.“


Ætlaði aldrei að opna bálstofu


Sigríður Bylgja komst að því að til að geta boðið fólki upp á óháðan grafreit þar sem gróðursetja mætti öskuna við tré, þyrfti hún að opna bálstofu.

„Ég ætlaði aldrei að opna bálstofu,“ segir hún með áherslu.

„Ég hafði bara hugsað að það væri geggjað fyrir fólk að geta valið um að láta gróðursetja sig.“

Svona mun merkingin líta út upp við tré sem gróðursett er í minningagarðinum.

Þarna var komin hugmynd að bálstofu og minningagarði fullum af trjám sem fólk getur heimsótt. Hvert og eitt tré verður merkt með spjaldi sem á stendur: Hér vex: Nafn manneskjunnar og síðan er QR kóði sem leiðir gesti inn á rafræna minningarsíðu um hinn látna og þar má skilja eftir skilaboð.“

Hún segist ekki vilja takmarka val fólks, svo ýmsir möguleikar verði í boði til að nýta sér þjónustuna, hægt sé að vera með minningarsíðu og QR kóða á legsteini í kirkjugarði og einnig sé hægt að útbúa minningarsíðu fyrir einstakling sem velur að láta dreifa ösku sinni.

Hringrás lífsins


„Ef við hugsum um hringrás lífsins þá er merkingarþrungið að gróðursetja tré með öskunni. Tré búa til súrefni sem við þurfum til að lifa og við búum til koltvísýring sem tré þurfa. Þetta er geggjað samband og það að faðma tré fær allt aðra merkingu þegar einhver er þar undir sem þú tengir djúpt við.“


Tré lífsins verður rekið sem sjálfseignarstofnun og segir Sigríður Bylgja stefnuna vera að það fé sem kemur inn verði einfaldlega notað til að halda við tækjum og búnaði og þróa næstu lausnir. „Það er eitthvað sem tekur við af bálförum, ég er alveg farin að hugsa svo langt.“

Tré lífsins hefur fengið úthlutað svæði í Rjúpnadal við Smalaholt í Garðabæ samkvæmt deiliskipulagi.

Tré lífsins hefur fengið úthlutað svæði í Rjúpnadal við Smalaholt í Garðabæ samkvæmt deiliskipulagi.

„Við fáum þar lóð fyrir bálstofu og fyrsta minningagarðinn en ætlunin er að þeir verði í framtíðinni um allt land,“ segir hún, en fyrsta skóflustunga er á dagskrá í sumar.

„Við erum komin í samstarf við Skógræktarfélag Íslands og munum gróðursetja stálpuð tré með lífrænum duftkerum. Þannig vonumst við til að búa til aðeins dýpri tengingu og jafnvel meiri væntumþykju fyrir náttúrunni.“


Skráir sjálfur arfleifð þína


En að hinum anga verkefnis Sigríðar Bylgju, Lífsbókinni sjálfri, sem ætlunin er að sé rafræn bók sem ritari skráir sjálfur í lifanda lífi og í framhaldi verður bæði eftirlifendum leiðbeinandi og minningarsjóður.


„Til að geta haldið Tré lífsins sem sjálfseignarstofnun í samfélagslegu hlutverki, stofnaði ég sjálfseignarstofnun í kringum það og hefðbundið félag í kringum Lífsbókina,“ útskýrir Sigríður Bylgja, sem nú hefur sett í loftið sýnishorn af Lífsbókinni, lifsbokin.is, þar sem fólk getur kynnt sér hugmyndina og svarað skoðanakönnun um efni hennar og virkni. Halla Kolbeinsdóttir hannaði og setti upp vefinn.

Sigríður Bylgja hér ásamt Höllu Kolbeinsdóttur, sem hannaði vefsíðuna utan um Lífsbókina. fréttablaðið/Anton brink

„Við erum að athuga hvort þörf sé á slíkri þjónustu en hugmyndin er að fólk geti þá keypt sér aðgang að Lífsbók og skráð þar arfleifð sína. Fólk skráir þá sína sögu á meðan hún er enn að gerast. Sú skráning getur gefið okkur góða sýn á okkar líf þegar við eldumst. Þannig sjáum við þroskann hjá sjálfum okkur rétt eins og þegar við lesum gamlar dagbækur,“ útskýrir hún.

„Lífsbókin skiptist í tvo hluta: á meðan við erum á lífi og þegar við erum fallin frá. Sá hluti sem við notum á meðan við erum enn á lífi skiptist í: Sagan mín, sem við skráum jafnt og þétt með hljóðupptökum, myndum og myndböndum og svo er það fjölskyldutréð og lykilorð og reikningar.“


Dýpri tenging við kjarnann


Hugmyndin að baki Lífsbókinni hefur verið lengi í þróun, en Sigríður Bylgja segir þau hafa lagst í djúpar rannsóknir til að geta lofað því að Lífsbókin lifi.


„Ég vil geta lofað því að þegar ég er orðin 85 ára verði Lífsbókin enn þá í gangi, sama hvernig tæknin þróast. Barnabörnin mín geta þá upplifað sögu mína og samtíma minn og náð dýpri tengingu við kjarnann sinn. Við störfum með sérfræðingum á sviði öryggis- og tæknimála til að tryggja þetta, því ég vil ekki fara með þetta í loftið nema geta staðið við þetta loforð.“

Hér má sjá sýnishorn af vefsíðunni Lífsbókin.is

Í Lífsbókina skráir fólk sína sögu með sínum orðum, stórar sem litlar upplifanir.

„Svo er hægt að skrá fjölskyldutréð sitt algjörlega óháð blóðböndum en fjölskyldumynstur eru alls konar. Íslendingabók er eitt en í Lífsbókina skráirðu frekar hvernig fjölskyldutréð er í þínum huga. Kannski er besta vinkona þín hluti af fjölskyldunni og svo auðvitað stjúpbörnin.

Við erum svo alls konar og það verður að vera rými fyrir það. Við hvern og einn einstakling má svo setja minningar og myndir og sífellt má bæta inn upplýsingum, eins og fyrstu orðum barnsins þíns, fyrsta daginn í sex ára bekk eða sögur frá unglings­árunum.“´

Óþægilegt að tala um dauðann


Við nýskráningu í Lífsbókina skráir notandinn tvo nána aðstandendur sem svo fá aðgang að henni við andlát viðkomandi.

„Það er óþægilegt að tala um dauðann og það finnst mörgum. Hugmynd okkar er að fólk komi til okkar þegar ástvinur deyr og fái þá bókina í hendurnar og getur hún bæði verið huggun í sorginni en einnig leiðbeinandi um hinstu óskir hins látna.

„Hugmynd okkar er að fólk komi til okkar þegar ástvinur deyr og fái þá bókina í hendurnar og getur hún bæði verið huggun í sorginni en einnig leiðbeinandi um hinstu óskir hins látna."

Eins og fyrr segir þá skiptist Lífsbókin í tvo hluta, en sá seinni fjallar um hvað tekur við eftir dauðann.

„Þar skráirðu hinstu óskir þínar, erfðamál og kveðjur til aðstandenda. Ef þú velur að skrifa bréf til einstaklinga varðveitum við það þar til þú fellur frá og fær aðeins viðkomandi það í hendur.“

Sigríður Bylgja segir hugmyndina þannig vera að aðstandendur fái í hendur bók sem aðstoðar þá í skipulagi kveðjustundarinnar en jafnframt fjársjóðskistu minninga.

„Það er búið að fjarlægja okkur mikið dauðanum og ég ætla ekki að leggja mat á hvort það sé gott. En við þurfum samt að eiga þetta samtal því það er svo algengt að við hrökkvum upp við missi þar sem skyndilega allt er farið. Þetta er líka leið til að halda í arfleifðina og halda í tengingu á milli kynslóða. Mér þætti til að mynda frábært að geta lesið minningar ömmu minnar sem ólst upp í kringum 1900 á Vík í Mýrdal og sjá hvort við ættum eitthvað sameiginlegt,“ segir hún og bætir við:

„Ég held að við tengjum öll við sorg og missi og pældu í því, við höfum aldrei verið eins tengd með tilkomu tækninnar, en við höfum aldrei verið eins ótengd, það ríkir faraldur einmanaleika.“


Notendur hafi áhrif


Eins og fyrr segir hefur verið sett upp kynning á Lífsbókinni á lifsbokin.is þar sem hægt er að hafa áhrif á þróun hennar út mánuðinn og hvort yfirhöfuð verkefnið fari alla leið.

„Þar er mikið af upplýsingum en kannski er okkur að yfirsjást eitthvað og þá langar okkur að heyra það,“ segir Sigríður Bylgja, full af eldmóð, en aðspurð viðurkennir hún í lokin að verkefnið hafi stækkað meira en hana óraði fyrir:


„Mig langaði bara að hjálpa fólki að gróðursetja tré en allt í einu er ég komin með bálstofu, minningagarð, minningarsíður og svo framvegis. Það er bæði gaman og erfitt að vera frumkvöðull en þetta hefur verið magnað ferðalag,“ segir hún að lokum.

Hægt er að skoða Lífsbókina nánar og svara skoðanakönnuninni varðandi hana á www.lifsbokin.is