„Ég er búinn að bíða eftir búsetu hjá Reykjavík í átta ár. Auðvitað er fínt að geta búið hjá mömmu og pabba en mig langar að upplifa það að búa sjálfur og bjarga mér sjálfur,“ segir Atli Már Haraldsson, 26 ára gamall maður sem býr hjá foreldrum sínum og hefur beðið eftir að geta flutt út í átta ár. Hann sér ekki fram á að flytja út á næstunni, þar sem hann er fatlaður og fá úrræði í boði fyrir hann.

„Ég vil fá að prófa að flytja og hugsa um mig einn og sjálfur með aðstoð. Ég vona að borgin samþykki mig sem fyrst í búsetu.“

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar hefur sagt nýtt fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ekki innihalda neitt til að að bæta hag fatlaðs fólks á örorkulífeyri.

Bryndís Snæbjörnsdóttir formaður segir stöðu fatlaðs fólks mismunandi og þurfi mörg að treysta á fjölskyldur sínar. Bakland fólks er þó mismunandi og er nauðsynlegt að fjölga búsetuúrræðum fyrir fólk eins og Atla.

„Fólk neyðist kannski til að búa hjá foreldrum sínum, kannski langt fram á fertugsaldur vegna langra biðlista. Sumir þurfa jafnvel að nýta sér úrræði sem ætluð eru börnum eins og skammtímadvalir langt fram á fullorðinsár,“ segir Bryndís.

Atli var skráður hjá Svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðs fólks hjá ríkinu, sem umsækjandi um búsetuúrræði frá því að hann var 10 ára gamall, árið 2004. Hann sótti fyrst um að fá húsnæði þegar hann var 18 ára, árið 2012. Síðan þá hefur hann verið á biðlista og þurft að lúta í lægra haldi fyrir yngri umsækjendum.

„Það eru mjög margir, 26 ára og eldri, að bíða eftir úrræði. Mér finnst það mjög skrýtið,“ segir hann.

busetafatladra.is

Atli hefur gengið með margar hugmyndir í maganum um að einfalda umsóknaferlið fyrir búsetu fatlaðra. Hann hvetur ríki og sveitarfélög til að setja upp vefsíðu. Hann stingur meira að segja upp á nafni á léninu: busetafatladra.is.

Hann sér fyrir sér síðu þar sem fólk gæti skoðað kort af öllu landinu eða sínu hverfi og fengið upplýsingar um hvers konar þjónusta sé í boði. Hægt væri að smella á myndir og fá upplýsingar um leigu, hvort íbúðin sé laus eða frátekin og fólk fengið svar á þremur mínútum en ekki á þremur mánuðum eða þremur árum.

„Mér finnst ekki neinum bjóðandi að þurfa að bíða svona lengi. Félagsráðgjafarnir eru að reyna sitt besta en það er eitthvað sem er ekki að virka í samskiptum við borgina og ríkisstjórnina. Ég þarf að fara á hverju einasta tímabili upp á félagsþjónustu og skrifa undir pappíra og svo gerist lítið sem ekkert. Ég nenni þessu ekki lengur og mig langar bara að geta afgreitt þetta í tölvu og byrjað svo að lifa sjálfstæðu lífi.“