„Við fylgdumst með þessu úr góðri fjarlægð frá þessu því það voru margir á svæðinu, viðbragðsaðilar og fleiri til. Það var reyndar svolítið mistur í loftinu, þannig að við sáum ekki vel til skotsins sjálfs,“ segir Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, spurður hvort hann hafi fengið að fylgjast með eldflaugarskoti sem átti sér stað í sveitarfélaginu á dögunum.

„Björgunarsveitin var að gæta upp á svæðið og slökkviliðið var um leið mætt til að fylgjast með að fólk væri ekki að fara of nálægt. Við vorum búin að koma okkur vel fyrir en mistrið í loftinu skyggði aðeins á útsýnið.“

Umrædd eldflaug, Skylark L sem er ellefu metra löng, endaði í sjónum en skoska fyrirtækið Skyrora var þarna að gera sína aðra tilraun með geimflaugarskot á svæðinu. Tilraunin var hluti af undirbúningi Skyrora sem stefnir á að reyna að koma stærri eldflaugum út í geim frá og með næsta ári.

Björn tekur undir að Langanesbyggð gæti séð markaðstækifæri í því að bjóða upp á staðsetningu til slíkra tilrauna.

„Þetta var skemmtileg tilbreyting og þetta hefur vonandi bara jákvæð áhrif á samfélagið. Það gæti reynst ákveðin framtíð í því að Langanesbyggð yrði staðurinn á Íslandi sem kæmi fyrst til greina þegar kemur að því að skjóta upp tilraunaeldflaugum,“ segir Björn og heldur áfram:

„Við sjáum ákveðin markaðstækifæri í þessu. Við erum með fjarlægð frá byggð, innan gæsalappa, og að hér sé staður til að framkvæma þessi tilraunaskot.“

Björn segist ekki vera búinn að heyra frá forráðamönnum Skyrora þar sem hann hafi verið upptekinn í gær þegar Skotarnir leituðu eftir fundi en segist eiga von á því að ræða við þá um næstu skref og frekara samstarf. Hann segir að heimamenn hafi vitanlega sýnt þessu mikinn áhuga.

„Við fundum það alveg að fólk var spennt fyrir þessu og spennt fyrir því að Langanesbyggð yrði fyrir valinu í þessu verkefni.“

Sveitarstjórinn segist ekki vera með nákvæmari upplýsingar um hversu langt flaugin fór né tæknilegu atriðin en blaðamaður BBC á svæðinu fullyrti að umrædd flaug hefði lent í sjónum hálfum kílómetra frá skotpallinum