Landsvirkjun hefur gert samkomulag við sænska fyrirtækið Climeon um að rannsaka möguleikann á að nýta glatvarma til þess að vinna kísil úr jarðhitavökva, eða skilavatni. Munu prófanir hefjast við Kröfluvirkjun í Mývatnssveit.

Bjarni Pálsson, forstöðumaður þróunar á jarðhita og vindi hjá Landsvirkjun, segir verkefnið hafa byrjað þegar Climeon og fleiri sóttu um styrk til að þróa áfram nýja tækni til að ná kísil og öðrum steinefnum úr jarðhitavökva. Bæði til að kanna hvort verðmæti séu í þessum steinefnum og gera vökvann nýtanlegri, til að vinna úr honum rafmagn eða skila aftur ofan í jörðina. Steinefni hafa gjarnan stíflað holur þegar vökvanum er skilað.

Climeon er vélbúnaðarframleiðandi sem hefur reynslu á sviðinu en með þeim í verkefninu er nýsjálenskt fyrirtæki sem heitir Geo40, sem hefur verið að þróa aðferðir til að ná kísil úr vökvanum. Bjarni segir ekki ljóst hvenær rannsóknirnar hefjist en verkefnið sé enn þá á byrjunarstigi og verið að fjármagna það Aðspurður um hvort Landsvirkjun mun standa að vinnslunni á kísilafurðum, gangi allt eftir, segir hann það ekki ákveðið á þessari stundu. „Við erum réttindahafi að nýtingu á jarðhitaréttindunum og lítum svo á að þetta falli undir það. En við höfum líka verið opin fyrir því að vera í samstarfi við aðra aðila,“ segir Bjarni.

Hann segir þetta ekki algjöra nýlundu á Íslandi. Til að mynda séu heilsu- og snyrtivörur unnar í Hellisheiðarvirkjun og einnig séu unnar vörur í tengslum við rekstur Bláa lónsins. „Nú erum við að horfa til svipaðra aðferða en á miklu stærri skala, ekki endilega til að framleiða vörur heldur aðallega til að hreinsa vökvann,“ segir Bjarni.