Landsvirkjun hafnar málflutningi Samtaka iðnaðarins um að myndin sem Martin Jackson, álsérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu CRU, dró upp á morgunverðarfundi Landsvirkjunar sé ekki lýsandi fyrir stöðuna.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, að samkeppnisstaða Íslands sé að versna, orkuverð á Íslandi hafi hækkað á sama tíma og það fari lækkandi annars staðar í Norður-Evrópu.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar, segir Landsvirkjun bera fullt traust til Jacksons og CRU. „Landsvirkjun ber fullt traust til sérfræðiþekkingar CRU og telur að greiningar fyrirtækisins hafi í gegnum tíðina gefið raunsæja mynd af álmörkuðum og samkeppnisstöðu íslenskra álfyrirtækja,“ segir Stefanía.

Hún segir niðurstöðuna sem Jackson kynnti á miðvikudag vera skýra. „Raforkuverð til álvera á Íslandi er vel samkeppnishæft við það sem álverum býðst annars staðar í heiminum og vegna baráttunnar við loftslagsbreytingar mun samkeppnisforskot íslensku endurnýjanlegu raforkunnar líklega aukast enn meira í framtíðinni, bæði orkufyrirtækjum og stórnotendum á Íslandi til hagsbóta,“ segir Stefanía.

Stefanía_landsvirkjun.jpg

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar

„Áliðnaðurinn í heiminum býr sannarlega við krefjandi markaðs­aðstæður um þessar mundir sem má fyrst og fremst rekja til aðstæðna á alþjóðamörkuðum, minni eftirspurnar og mikils vaxtar í framleiðslugetu álvera í Kína, sem eru fyrst og fremst knúin af mengandi kolaorkuverum,“ segir Stefanía enn fremur.

Í frétt Fréttablaðsins í gær nefndi Sigurður gagnaver Advania í Svíþjóð sem dæmi um versnandi samkeppnisstöðu Íslands í þessum efnum.

Advania hefði fjárfest mikið hér á landi og byggt upp starfsemi sína hér. Engu að síður hefði fyrirtækið kosið að fara í sína næstu fjárfestingu í Svíþjóð og raforkuverð væri þar stór hluti ástæðunnar, þótt aðrir þættir gætu hafa haft þar áhrif. Þá gagnrýndi Sigurður að ályktun Jacksons væri byggð á tölum frá árinu 2018. Þær séu úreltar fyrir þær sakir að endursamið hafi verið við stóra orkukaupendur, svo sem Elkem á Grundartanga og Norðurál. Hins vegar njóti þeir sem eru á eldri samningum hagstæðari kjara. Ekki sé hægt að taka hluta markaðarins og heimfæra á heildina.