Landspítali flytur margháttaða heilbrigðisþjónustu í húsnæðið að Eiríksgötu 5 þar sem eitt sinn voru skrifstofur spítalans.

Opnuð verður göngudeildarþjónusta við konur með brjóstakrabbamein, allt frá skimun til eftirlits eftir meðferð og flyst sú þjónusta frá Krabbameinsfélaginu í Skaftahlíð í apríl eftir páska. Þangað til fara skimanir áfram þar fram, nú á vegum Landsspítalans.

Göngudeildarþjónusta verður einnig fyrir gigtarsjúkdóma, innkirtlasjúkdóma, erfðaráðgjöf og augnsjúkdóma. Augnsjúkdómadeild spítalans flyst alfarið af Þorfinnsgötu sem hefur hýst þá deild um langt árabil. Fyrir starfsemina verða skurðstofur, röntgenstofur, skimunaraðstaða, skoðunarrými og viðtalsherbergi. Skurðaðgerðir og geislameðferð vegna brjóstakrabbameins verða áfram á öðrum stað í spítalanum við Hringbraut.

Húsið hefur fengið heitið „Eiríksstaðir“ og hafa á undanförnum 12 mánuðum verið gerðar umfangsmiklar breytingar á húsinu sem er alls 3.400 fermetrar að stærð. Ráðgert að komur í húsið verði tæplega 300 á dag og um 60 þúsund á ári þegar þjónustan verður komin á fullt skrið.

Tekið verður á móti fyrstu sjúklingunum á þriðjudaginn, 26.janúar á augnsjúkdómadeildinni, sem mun opna fyrst.

Páll Matthíasson, forstjóri landsspítala segir húsnæðið leysa húsnæðisskort og gera sjúklingum kleift að fá þjónustu tengdra sjúkdóma á einum og sama staðnum. "Hér getur átt sér stað meiri sam­vinna á milli sér­greina og þverfagleg vinna sem er betri þjónusta við sjúklingana," segir Páll.

Undirbúningur að opnun göngudeilda á Eiríksstöðum hófst í október árið 2018 og framkvæmdir rétt um ári síðar.

Eigandi hússins er fasteignafélagið Reitir en spítalinn hefur leigt húsnæðið af félaginu síðan um síðustu aldamót.