Landsréttur hefur vísað frá dómi kæru sóttvarnalæknis um nýfallinn úrskurð héraðsdóms um skyldudvöl í sóttvarnahúsi, en með úrskurði héraðsdóms voru ákvarðanir sóttvarnalæknis þar að lútandi felldar úr gildi. Með frávísun Landsréttar stendur úrskurður héraðsdóms óhaggaður.

Vísað er til skorts á lögvörðum hagsmunum í úrskurði Landsréttar um frávísun málsins, enda fólkið sem kærði skyldudvöl í sóttvarnahúsi ekki lengur í sóttkví.

Kæran barst Landsrétti sólarhing eftir úrskurð héraðsdóms

„Eitt meginskilyrði fyrir því að dómstólar leysi úr sakarefni er að það skipti máli fyrir stöðu aðila að lögum að fá dóm um það. Þessi regla um nauðsyn lögvarinna hagsmuna byggist á því að ekki verði lagt fyrir dómstóla að leysa úr málefni sem engu skiptir lagalega fyrir aðilana að fá niðurstöðu um,“ segir í niðurstöðu Landsréttar.

Kæra sóttvarnalæknis hafi borist Landsrétti í gær klukkan 15 en það er tæpum sólarhring eftir að úrskurður héraðsdóms var kveðinn upp. Greinargerð varnaraðila barst svo rétt fyrir klukkan 15 í dag og var þá fyrst hægt að úrskurða í málinu.

Í úrskurðinum segir að fyrir liggi að varnaraðili hafi yfirgefið sóttvarnahús eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Samkvæmt tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins á laugardaginn hafi einnig verið brugðist við úrskurði héraðsdóms með yfirlýsingu um að þeim sem þá dvöldu á sóttkvíarhótelum væri frjálst að ljúka sóttkví annars staðar, hafi þeir viðunandi aðstöðu til þess. Þá liggi loks fyrir að þeirri dvöl varnaraðila á hótelinu sem ákvörðun sóttvarnalæknis tók til hafi lokið þegar niðurstaða úr sýnatöku lá fyrir fyrr í dag og var hún neikvæð.

„Samkvæmt þessu skortir lögvarða hagsmuni af því að Landsréttur leysi nú úr kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Verður málinu því vísað frá dómi án kröfu,“ segir að lokum í úrskurði Landsréttar.

Héraðsdómur vísar í meðalhófs- og jafnræðisreglu

Í úrskurði héraðsdóms var byggt á því að ákvæði í reglugerð ráðherra um skyldudvöl í sóttvarnahúsi, skorti lagastoð þar sem farið sé út fyrir heimildir sem sóttvarnalög leyfi. Þá er byggt á jafnræðisreglunni og mikilvægi meðalhófs þegar borgarar eru beittir íþyngjandi aðgerðum sem skerða réttindi sem tryggð eru í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Vísað er til þess að einstaklingar sem hafa sannanlega umgengist smitaða einstaklinga fái að vera í sóttkví heima hjá sér. Ferðamönnum sem falli í tiltekinn hóp sé hins vegar gert skylt að dvelja í sóttvarnahúsi, þrátt fyrir að ekki liggi fyrir hvort þeir hafi umgengist smitaða einstaklinga. Þetta fer að mati héraðsdóms í bága við reglur um meðalhóf og jafnræði.

Þá er að lokum á því byggt að reglugerðarákvæðið fari út fyrir þá heimild sem veitt er í lögunum og það skorti því lagastoð. Með þessum rökum felldi héraðsdómur ákvarðanir sóttvarnalæknis úr gildi hvað varðar þá einstaklinga sem úrskurðirnir taka til.

Skoða bæði framkvæmd laganna og lagabreytingu

Heilbrigðisráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að hún biði niðurstöðu Landsréttar og myndi ekki taka ákvörðun um hvort ráðist verði í breytingar á sóttvarnalögum fyrr en endanlega niðurstaða dómstóla lægi fyrir.

Þá sagði hún að ráðuneytið hafi ýmsa möguleika til skoðunar bæði varðandi regluverkið og framkvæmdina. Til skoðunar sé meðal annars famkvæmd ákvarðana um sóttkví, aðgerðir til að tryggja að fólk haldi sóttkví og aðgerðir á landamærum. „Við erum með þetta allt undir núna, erum bara að fara yfir þetta en erum í hálfgerðu millibilsástandi,“ sagði Svandís og vísaði til biðarinnar eftir Landsrétti.

Fréttablaðið ræddi einnig við nokkra nefndarmenn í velferðarnefnd eftir niðurstöðu héraðsdóms í gær og í máli margra þeirra kom fram eindreginn vilji til að skoða framkvæmd gildandi sóttvarnalaga betur áður en ráðist verði í breytingar á þeim í því skyni að veita hinu umdeilda reglugerðarákvæði lagastoð.

Fréttin hefur verið uppfærð.