Lands­réttur tekur til starfa að nýju í næstu viku eftir að dag­­skrá þessarar viku var frestað í ljósi niður­­­stöðu Mann­réttinda­­dóm­­stóls Evrópu. Þetta kemur fram í til­­­kynningu frá Her­vöru Þor­valds­dóttur, for­­seta Lands­réttar. Lands­réttur til­kynnti á þriðju­dag að dóm­störfum yrði frestað, út vikuna sem nú er að líða hið minnsta.

Dómararnir fjórir sem skipaðir voru við réttinn að til­lögu Sig­ríðar Á. Ander­sen, þá­verandi dóms­mála­ráð­herra, munu ekki taka þátt í dóm­störfum þegar Landsréttur kemur saman að nýju eftir helgi.

Um er að ræða þau Arn­fríði Einars­dóttur, Ás­­mund Helga­­son, Jón Finn­björns­­son og Ragn­heiði Braga­dóttur sem ekki hlutu náð fyrir augum sér­­stakrar hæfis­­nefndar um hæfni um­­­sækj­enda við milli­­­dóm­­stig Lands­réttar. Fram kemur að Ragn­heiður sé í leyfi frá Lands­rétti vegna náms, frá 1. janúar til 30. júní 2019.

Mann­réttinda­dóm­stóllinn komst að þeirri niður­stöðu að skipan Sig­ríðar, þvert á mat nefndarinnar, hafi verið and­stæð lögum. Fór svo að hún til­kynnti að hún hygðist stíga til hliðar sem dóms­mála­ráð­herra. Em­bættis­skipti hennar og Þór­dísar Kol­brúnar Reyk­fjörð Gylfa­dóttur gengu síðan í gegn í gær eftir fund ríkis­ráðs á Bessa­stöðum. Þór­dís Kol­brún mun gegna em­bætti dóms­mála­ráð­herra tíma­bundið en hún er fyrir ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra. 

Dómararnir sem sinna munu dóm­störfum þegar Lands­réttur tekur til starfa á mánu­dag eru: Aðal­steinn E. Jónas­son, Davíð Þór Björg­vins­son, Her­vör Þor­valds­dóttir (forseti Landsréttar), Ing­veldur Einars­dóttir, Jóhannes Sigurðs­son, Krist­björg Stephen­sen, Odd­ný Mjöll Arnar­dóttir, Ragn­heiður Harðar­dóttir, Sigurður Tómas Magnús­son, Vil­hjálmur H. Vil­hjálms­son og Þor­geir Ingi Njáls­son.

Fréttin hefur verið uppfærð.