Landsréttur sýknaði í gær karlmann á þrítugsaldri af ákæru fyrir nauðgun. Maðurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraði árið 2018 fyrir að nauðga konu á menntaskólaaldri, en þau höfðu hist á skemmtistað í Reykjavík og hann boðist til að keyra hana heim.

Samkvæmt dómi héraðsdóms gat konan ekki komið vörnum við sökum ölvunar og var ákærði sakfelldur fyrir að hafa nýtt sér ástand hennar og komið vilja sínum fram.

Ákærði hélt því hins vegar fram að konan hefði verið vel áttuð og þau hefðu haft samræði með fullum vilja hennar.

Að virtum framburði ákærða, konunnar og vitna var talið ósannað að hún hefði verið ófær um að sporna við gjörðum hans, en fyrir lá að engin mæling hefði verið gerð á magni áfengis í blóði og þvagi konunnar.