Landsréttur hefur stytt fangelsisdóm yfir karlmanni sem nauðgaði fyrrverandi sambúðarkonu sinni og barnsmóður um sex mánuði.

Maðurinn var í héraðsdómi í fyrra dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir kynferðisbrot. Hanni áfrýjaði til Landsréttar sem staðfestir dóm héraðsdóms en stytti refsinguna.

Konan kærði manninn fyrir nauðgun og sakaði hann um að hafa stungið fingri í leggöng hennar, hent henni á rúm, girt niður um hana, rifið í hár hennar og nauðgað henni. Landsréttur segir að framburðir þeirra beggja hafi verið trúverðugir.

Bæði brotaþola og ákærða bar saman um að þau hafi hist þennan dag heima hjá manninum þegar konan ætlaði að sækja föt af dóttur þeirra. Maðurinn neitaði sök og sagði konuna hafa samþykkt kymök. Landsréttur segir framburð þeirra beggja hafa verið stöðugur undir meðferð málsins.

Konan leitaði á bráðamóttöku í kjölfar nauðgunarinnar og var þar skráð að hún væri með þreifieymsli í hársverði, og sár og mikil eymsli á innri skapabörmum. Hún hafi grátið og skolfið við komuna á spítalann.

Í málinu liggur fyrir afrit af textaskilaboðum sem maðurinn sendi brotaþola eftir að hún fór frá honum: „fyrirgefðu með allt sem gerðist aðan eg vona að þetta hafi ekki ollið eh slæmu :(((“.

Maðurinn viðurkenndi fyrir dómi að hafa sent skilaboðin en kvað þau skýrast af því að konan hefði spurt hann í hvaða tilgangi hann hefði viljað stunda kynlíf með henni og reiðst er hann hefði sagst ekki vilja taka upp samband með henni á ný. Hann hefði með skilaboðunum viljað „fyrirbyggja illindi varðandi þetta“.

Skýring hans var metin ótrúverðug og framburður brotaþola trúverðugur.

Tafir lengdu fangelsisdóminn

Í Héraðsdómi höfðu tafir á sendingu málsgagna áhrif á ákvörðun refsingar. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í september í fyrra kemur fram.

„Af málsgögnum verður ráðið að eðlilegur framgangur var á rannsókn málsins og var henni lokið í maí 2020. Það var hins vegar ekki sent héraðssaksóknara fyrr en í desember sama ár og hafa ekki komið fram skýringar á þeim drætti. Verður að nokkru litið til þeirra tafa við ákvörðun refsingar ákærða.“

Landsréttur tók ekki undir með héraðsdómi. „Ekki verður fallist á það með héraðsdómi að þeir rúmu sex mánuðir sem liðu frá því að lögreglurannsókn lauk þar til ákæra var gefin út hafi áhrif á refsiákvörðun í málinu.“

Var því dómurinn styttur um sex mánuði.