Landsréttur staðfesti í gær tvo dóma er varða nauðganir. Í báðum málunum var karlmaður sakfelldur og hlaut óskilorðsbundin fangelsisdóm fyrir brot sín.

Annar maðurinn hlaut tveggja og hálfs árs óskilorðsbundin dóm fyrir að nauðga og haft önnur kynferðismök við konu án hennar samþykkis, og fyrir að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar. Umrætt atvik átti sér stað í september 2021.

Maðurinn neitaði sök og hélt því fram að þau hafi stundað kynlíf og að samþykki lægi fyrir, en samkvæmt dómnum var framburður hans á reiki. Þá er talið ljóst að konan hafi verið illa áttuð vegna ölvunar, og að af ástandi hennar að dæma hafi verið ljóst að hún væri ekki í ástandi til að gefa samþykki fyrir kynmökum.

Auk fangelsisdómsins er honum gert að greiða konunni 1,8 milljónir krónur í miskabætur, sem og annan kostnað sem er rúmlega sjö milljónir króna.

Bar fyrir sig að vera mjög drukkinn

Hinn maðurinn hlaut átján mánaða fangelsisdóm fyrir að nauðgun og húsbrot sem átti sér stað í apríl 2018. Hann var sakfelldur fyrir að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili konunnar og nauðgað henni og haft önnur kynferðismök við konu án hennar samþykkis, og fyrir að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og áhrifa svefnlyfs.

Maðurinn neitaði sök og bar það fyrir sig að hann hafi verið mjög drukkinn nóttina þegar atvikið átti sér stað og kvaðst ekki muna atburði næturinnar. Framburður konunnar þótti hins vegar trúverðugur, en hún sagðist hafa vaknað við það að maðurinn væri að sleikja á henni kynfærin.

Manninum er gert að greiða tvær milljónir króna til konunnar í miskabætur og rúmlega fimm milljónir í annan kostnað. Fram kemur að árið 2006 hafi þessi sami maður hlotið þessi dóm í Hæstarétti fyrir tilraun til manndráps.