Landsréttur staðfesti í dag sýknudóm í kynferðisbrotamáli. Karlmaður var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni fyrrverandi sambýliskonu sinnar og var hann sakaður um að hafa nýtt sér yfirburðastöðu sína gegn stúlkunni frá því að hún var 9 til 11 ára. Honum var gefið að sök að hafa snert og sleikt kynfæri hennar og brjóst.

Mál þetta dæmdu landsréttardómararnir Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson og Ragnheiður Bragadóttir en að þeirra mati var framburður mannsins stöðugur og ekkert sem kom fram sem rýrði sönnunargildi hans.

Sagði frá á Snapchat

Upptaka í hljóði og mynd af framburði brotaþola í Barnahúsi þann 30. janúar 2017 var spiluð við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti en brotaþoli gaf einnig nýja skýrslu fyrir Landsrétti. Þar sagði hún atvikin hafa átt sér stað á heimili þeirra. Hinn ákærði hefði strokið henni um brjóstin meðan þau lágu í rúminu og hefði henni þótt snertingin óþægileg.

Snertingunum hefði fækkað eftir að hún fór í auknum mæli að sofa í eigin rúmi. Ákærði hefði einhvern tíma sagt við hana
að þetta væri „litla leyndarmálið“ þeirra og að hún ætti ekki að segja mömmu sinni eða börnunum hans frá þessu.

Hún greindi hún frá því að hinn ákærði hefði spurt hana ítrekað hvort hann mætti kyssa á henni „píkuna“ í einni sumarbústaðaferð en hún neitað þar til hún hafi látið undan. Þá hefði hann einnig kysst hana á brjóstin og á munninn. Eftir þetta hefði hún neitað að fara ein með ákærða í sumarbústaðinn en ekki þorað að segja nokkrum frá því sem gerst hafði.

Hún hefði gleymt þessu þangað til hún hitti ákærða fyrir tilviljun í verslun í kringum jólin 2016. Hefðu brotin þá rifjast upp fyrir henni og hún greint vinkonu sinni frá þeim í spjalli á samfélagsmiðlinum Snapchat. Þá hafi vinkona hennar og móðir hennar greint móður brotaþolans um þetta.

„Leiðandi spurningar“ í Barnahúsi

Tekið er fram í dómnum að í skýrslu stúlkunnar í Barnahúsi hefði hún þurft mikla hvatningu frá spyrli og að hún hefði oft gefið mjög takmörkuð og stundum óljós svör. Þá hefði nokkuð borið á leiðandi spurningum um atriði sem fyrri svör hefðu ekki gefið sérstakt tilefni til að fara út í. Var talið óhjákvæmilegt að líta meðal annars til þeirra atriða við mat á sönnunargildi framburðarins.

Þrátt fyrir það taldi dómurinn framburð brotaþola vera skýran og að hún svarað spurningum sækjanda greiðlega og af nokkurri nákvæmni. Dómurinn gat ekki litið framhjá brotakenndri frásögninni í Barnahúsi.

„Þegar litið er til þeirra atriða, sem getið er um í dæmaskyni í fyrrgreindu lagaákvæði að þýðingu hafi við mat á sönnunargildi vitnisburðar, er ekkert fram komið sem rýrir þann framburð brotaþola. Þó verður að líta til þess að þar var hún að bera um atvik, sem eiga að hafa átt sér stað fyrir þó nokkuð mörgum árum, meðan hún var barn að aldri, eftir að fyrri framburður hennar af brotum ákærða hafði verið rifjaður upp,“ segir í dómnum.

Tekið er fram í dómnum að í skýrslu stúlkunnar í Barnahúsi hefði hún þurft mikla hvatningu frá spyrli.
Fréttablaðið/Pjetur Sigurðsson