Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að vísa frá dómi ákæruliðum héraðssaksóknara er varða tilraunir til hryðjuverka. Fréttablaðið hefur úrskurðinn undir höndum, en í honum segir að ákæruvaldinu sé unnt að tilgreina mun skýrar og nákvæmar í ákæru hvaða orðfæri og yfirlýsingar í samskiptum sakborninganna ættu að sýna fram á að þeir hefðu tekið ákvörðun um að fremja hryðjuverk.

Í úrskurðinum segir jafnframt að það skorti verulega á að ákæruvaldið geri með viðhlítandi hætti grein fyrir þeim undirbúningsathöfnum sakbornings sem þar er vísað til og hvernig þær athafnir tengjast ætlaðri ákvörðun hans um að fremja verknaðinn.

„Samkvæmt framangreindu eru slíkir ágallar á tilgreiningu hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi varnaraðila samkvæmt köflum I og II í ákæru að þeir verða ekki taldir geta ráðið af ákærunni einni hver sú refsiverða háttsemi er sem þeim er gefin að sök í málinu. Eru þessir ágallar slíkir að með réttu má telja torvelt fyrir varnaraðila að halda uppi vörnum í málinu.“ segir í úrskurðinum, en þess má þó geta að einn dómari Landsréttar var á annari skoðun með úrskurðinn en hinir dómararnir.

„Ég segi nú bara eins og Júlíus Sesar í skilaboðum til senatsins í Róm eftir sigurinn á Farnakes II konungi Pontus í orrustunni við Zela í maí 47 f.K.:Veni, vidi, vici.“ segir hann á Facebook-síðu sinni.

Sakborningarnir tveir eru þó áfram ákærðir fyrir vopnalagabrot og þá er annar þeirra einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot.

Í samtali við Fréttablaðið segir Sveinn að um sé að ræða endanlega niðurstöðu þessarar ákæru.

„Ég lít svo á að þessu máli sé lokið,“ segir hann en bendir þó á að héraðssaksóknari gæti gefið út nýja ákæru.

Hann segir niðurstöðuna mikinn sigur fyrir umbjóðanda sinn. Aðspurður hvort hún sé það ekki líka fyrir hann svarar Sveinn: „Maður er í þessu til að vinna. Það er engin ungmennafélagsandi hérna.“

Einar Oddur Sigurðsson, verjandi hins mannsins, segir í samtali við Fréttablaðið að um sé að ræða „ótrúlegan létti fyrir skjólstæðing minn“.

Fréttin hefur verið uppfærð.