Landsréttur sendi Gunnari Inga Jóhannssyni, lögmanni og verjanda Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni, gögn um mál Páls Steingrímssonar skipstjóra Samherja fyrir mistök í mars síðastliðinn.

Þetta staðfestir Gunnar Viðar, skrifstofustjóri Landsréttar, í samtali við Fréttablaðið.

Aðalsteinn er einn fjögurra blaðamanna sem boðaðir voru til yfirheyrslu með stöðu sakbornings af lögreglunni á Akureyri vegna máls Páls.

Notaði gögnin í greinargerð

„Það fóru hérna gögn vegna kæru til hæstaréttar sem voru send fyrir mistök á lögmann varnaraðila,“ segir Gunnar Viðar. Hann segir þó nokkra daga hafa liðið áður en kunnugt varð um mistökin.

„Um leið og ég frétti af þessu þá hringdi ég í lögmanninn sem staðfesti við mig að hann hefði ekki áframsent gögnin á skjólstæðing sinn og samþykkti að gera það ekki,“ segir Gunnar Viðar.

Í millitíðinni skrifaði Gunnar Ingi greinargerð eftir gögnunum sem send var hæstarétti, „og það væri nú eitthvað óeðlilegt ef sakborningur hefði ekki lesið eigin greinargerð sem var send hæstarétti,“ segir Gunnar Ingi í samtali við Fréttablaðið.

Aðspurður hvort mistök af þessu tagi hafi áður gerst hjá Landsrétti segir Gunnar Viðar honum ekki vera kunnugt um það. „Þetta er eitt af því sem getur gerst og því miður gerðist þetta að sjálfsögðu í óheppilegu máli.“

Vísar í gögnin í leiðara

Ljóst er að innihald gagnanna sem voru send út fyrir mistök hafi lekið til fleiri aðila en til að mynda skrifaði Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, leiðara um málið í Kjarnann þann 11. apríl síðastliðinn þar sem hann meðal annars vísar í gögnin umræddu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins koma upplýsingarnar sem Þórður vitnar í aðeins fram í gögnunum sem Landsréttur sendi út fyrir mistök en ekki í greinargerðinni sem verjandi Aðalsteins lagði fram til Hæstaréttar.

Hæstiréttur vísaði málinu frá

Í máli Páls liggur fyrir játning þriðja aðila um að hafa eitrað fyrir Páli ásamt því að taka síma hans og afhenda hann fjölmiðlafólki.

Aðalsteinn krafðist úrskurðar dómara um hvort heimilt væri að boða hann til skýrslutöku vegna málsins. Málið fór í gegnum dómstigin þrjú en því var að lokum vísað frá dómi í Hæstarétti þann 16. mars síðastliðinn.

Lögreglan á Norðurlandi eystra hafði eftir þetta heimild til að kalla Aðalstein til yfirheyrslu með stöðu sakbornings en það hefur ekki enn verið gert.

Kærði niðurstöðuna til Landsréttar

Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks og einn fjögurra blaðamanna sem boðaðir voru til yfirheyrslu vegna málsins, krafðist dómsúrskurðar um vanhæfi lögreglunnar á Akureyri til að fara með málið í kjölfar Aðalsteins.

Héraðsdómur hafnaði kröfu hennar og kærði hún þá niðurstöðu til Landsréttar.