Fangelsisrefsingar í Bitcoin-málinu svokallaða voru lækkaðar umtalsvert í Landsrétti í morgun.

Í janúar 2019 voru sjö menn dæmdir fyrir aðild að fjölda innbrota í gagnaver um áramótin 2017 til 2018 og þjófnaði á miklu magni tölvubúnaðar sem ætlaður er til að grafa eftir rafmyntum. Þeir fimm sem hlutu þyngstu refsingu áfrýjuðu málinu til Landsréttar sem kvað upp dóm í málinu í dag.

Refsing Sindra Þórs lækkuð um eitt ár

Fangelsisrefsing yfir Sindra Þór Stefánssyni var lækkuð um eitt ár; úr fjórum og hálfu ári niður í þrjú og hálft ár.

Refsing Matthíasar Jóns Karlssonar var lækkuð mest; fór úr tveimur og hálfu ári í fangelsi niður í fimmtán mánuði, en sakfellingum fyrir samverknað í innbrotum var breytt í hlutdeild í Landsrétti sem hefur í för með sér refsilækkun.

Þá var refsing Hafþórs Loga Hlynssonar lækkuð úr 20 mánaða fangelsi niður í átta mánuði.

Pétur sýknaður af tveimur innbrotum

Með dómi Landsréttar í morgun var Pétur Karl Stanislav sýknaður af samverknaði í innbrotinu í gagnaver Advanía 16. janúar en sakfelldur hlutdeild. Hann var sýknaður að öðru leyti og dæmdur í fimm mánaða fangelsi. Hann hafði áður verið dæmdur til átján mánaða fangelsisvistar.

Þá var Viktor Ingi Jónsson sýknaður af aðild að innbroti í gagnaver í Borgarnesi 15. desember 2017, en hann var sakfelldur fyrir aðild að því í héraði.

Mynd af tattúi dugi ekki til sakfellingar

Í Landsrétti er vísað til þess að sakfelling héraðsdóms hafi byggst á ótrúverðugum framburði Viktors og á ljósmynd af vinstri úlnlið ökumanns bifreiðarinnar úr eftirlitsmyndavél í Hvalfjarðargöngum umrædda nótt. Þótti myndin sýna sams konar húðflúr og armbandsúr og sjá megi af annarri ljósmynd af Viktori sem lögð var fram í málinu.

Í dómi Landsréttar segir að dómarar málsins hafi skoðað og borið myndirnar saman og ekki sé unnt að byggja sakfellingu Viktors á umræddum gögnum. Ófullnægjandi framburður hans dugi heldur ekki einn og sér til sakfellingar en engin önnur sönnunargögn liggi fyrir í málinu um aðild hans að umræddu broti.

Viktor Ingi fékk átta mánaða dóm fyrir aðild að öðru innbroti og var refsing hans lækkuð um tíu mánuði en hann var dæmdur til átján mánaða fangelsisvistar í héraði.

Bitcoin-málið var mikið í fréttum allt árið 2018, ekki síst vegna æsilegs flótta Sindra Þórs úr fangelsi og alla leið til Amsterdam. Þýfið sem stolið var í innbrotunum hefur enn ekki komið í leitirnar.