Lands­réttur hefur á­kveðið að fresta öllum dóms­málum, sem ein­hver hinna fjögurra dómara sem dóms­mála­ráð­herra skipaði þvert á til­lögur hæfnis­nefnar eiga sæti í, út vikuna. Um er að ræða þau Arn­fríði Einars­dóttur, Ás­mund Helga­son og Jón Finn­björns­son, auk Ragn­heiðar Braga­dóttur sem nú er í náms­leyfi. Verið er að meta næstu skref, að sögn Björns L. Bergs­sonar, skrif­stofu­stjóra Lands­réttar.

„Á þessu stigi er ný­búið að kveða upp dóm og dómarar eru að meta og rýna í hvað þessum dómi felst,“ segir Björn í sam­tali við Frétta­blaðið, en RÚV greindi fyrst frá. 

Líkt og fram hefur komið beið ís­lenska ríkið lægri hlut í Lands­réttar­málinu svo­kallaða fyrir Mann­réttinda­dóm­stóli Evrópu, þegar Sig­ríður Á. Ander­sen dóms­mála­ráð­herra skipaði dómara við Lands­rétt. Kallað hefur verið eftir af­sögn Sig­ríðar. 

„Það er ekki komin nein full­mótuð af­staða en það sem fyrst var gert var að við frestuðum mál­flutningi í þeim málum sem þessir til­teknu dómarar áttu að sitja í,“ segir Björn. Að öðru leyti liggur ekki fyrir hvað tekur við eftir þessa viku.