Efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu mun taka dóm dómstólsins í Landsréttarmálinu til endurskoðunar. Rúv greindi frá þessu fyrir stundu.

MDE komst að þeirri niðurstöðu með dómi 12. mars síðastliðinn að fjórir af fimmtán dómurum við Landsrétt hefðu ekki verið skipaðir í samræmi við lög og þar af leiðandi væru skilyrði réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi ekki uppfyllt þegar þeir sætu í dómi.

Enn verður því nokkur bið á að óvissu vegna málsins verði eytt en umræddir fjórir Landsréttardómarar, hafa ekki tekið þátt í dómstörfum frá því dómurinn féll 12. mars síðastliðinn.

Búast má við því að dómstólasýslan ítreki ákall sitt til stjórnvalda um tímabundna fjölgun dómara í Landsrétti meðan endanlegrar niðurstöðu frá í Strassborg er beðið.

Dráttur á meðferð mála við Landsrétt er þegar farinn að gera vart við sig og hafa bæði Dómstólasýslan og Lögmannafélagið lýst áhyggjum af stöðunni. Bregðast þurfi við áður en vandinn vindi upp á sig og verði erfiður viðureignar.