Þeir sem áfrýja málum til Landsréttar geta þurft að bíða í á annað ár eftir að mál þeirra komist á dagskrá. Skrifstofustjóri Landsréttar segir biðina of langa. Fjölga þurfi dómurum.

Fimmtán dómarar eiga sæti við Landsrétt og taka þrír dómarar þátt í meðferð máls fyrir dómi að jafnaði. Að sögn Gunnars Viðar, skrifstofustjóra Landsréttar, eru sakamál í forgangi. Má að jafnaði gera ráð fyrir að frá þingfestingu taki ríflega átta mánuði að klára aðalmeðferð.

Dómsmálaráðherra segir til skoðunar að fjölga dómurum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þau einkamál sem ekki fá flýtimeðferð hafa lengri biðtíma, það er frá því að gagnaöflun lýkur eftir áfrýjun uns þau komast á dagskrá.

„Biðtíminn þessa dagana er um þrettán mánuðir að jafnaði í einkamálum,“ segir Gunnar Viðar.

Hann segir biðina of langa. „Að stytta biðina var ein ástæða þess að stofna Landsrétt,“ segir Gunnar sem telur að fjölga ætti dómurum við réttinn. „Það er mikið álag á dómurum, hér koma yfir átta hundruð mál á ári.“

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að fjölgun dómara sé til skoðunar í ráðuneytinu. Jón segir flöskuhálsa í kerfinu. Ef fjölgað yrði um aðeins einn dómara í Landsrétti myndi það bjarga miklu.

„Það er ekki boðlegt að fólk bíði úrlausnar sinna mála árum saman,“ segir Jón en getur þess að flöskuhálsarnir séu víðar en í dómskerfinu. Unnið sé að úrbótum.