„Það er fjöldi fólks úti í sam­fé­laginu í ein­angrun. Það er við­búið að hluti þeirra muni þurfa að koma til okkar kasta, annað hvort á göngu­deildinni eða með inn­lögn,“ segir Már Kristjáns­son, yfir­læknir smit­sjúk­dóma­deildar Land­spítalans, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Fjórir ein­staklingar liggja nú inni á Land­spítalanum, þar af er einn á gjör­gæslu­deild í öndunar­vél. „Allir sem eru í öndunar­vél eru al­var­lega veikir, en að öðru leyti tjáum við okkur ekki um það,“ sagði Már þegar hann var spurður um líðan við­komandi.

Tuttugu kórónu­veiru­smit greindust hér á landi í gær og er staðan nú þannig að 455 ein­staklingar eru í ein­angrun. Smitum hefur fjölgað mjög undan­farnar tvær vikur og sagði Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir í sam­tali við Frétta­blaðið í morgun að aukinn fjöldi inn­lagna hefði verið við­búinn í því ljósi.

Már segir að á­lagið hafi aukist undan­farna daga og er birtingar­myndin í raun þrí­þætt segir hann. „Það hefur orðið fjölgun á göngu­deildinni, inn­lögnum hefur fjölgað vegna fleiri til­fella og í þriðja lagi höfum við fengið smit meðal starfs­manna í fram­haldi af þessu sam­fé­lags­smiti. Þegar þetta kemur allt saman þá verður starf­semin þyngri,“ segir hann um stöðuna á Land­spítalanum. Í gær voru 184 starfs­menn í sótt­kví og 35 í ein­angrun.

CO­VID-göngu­deildin notast við lita­kóða í störfum sínum. Ein­staklingar sem eru með væg eða engin ein­kenni eru metnir grænir, þeir sem eru með miðlungs­ein­kenni eru gulir og þeir sem eru með mikil ein­kenni eru rauðir.

„Ég held að þetta losi tíu sem eru á gulu stigi núna og tveir sem eru á rauðu stigi. Þeir eru þá í dag­legu mati og þá er fólk að fá ein­hverja með­ferð á göngu­deildinni til að forða inn­lögn,“ segir Már og bætir við að þessi með­ferð geti verið í formi vökva- eða lyfja­gjafar.

Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir sagði í morgun að þessi helgi fái að líða áður en á­kvörðun verður tekin um mögu­legar hertar að­gerðir. Spurður um af­stöðu sína til harðari að­gerða segist Már vera fylgjandi þeirri línu sem sótt­varna­læknir og al­manna­varna­deild hafa tekið.

„Það er að minnsta kosti enginn veldis­vöxtur í fjölda til­fella heldur er þetta meira svona eins og línu­legt fall og það virðist heldur vera að draga úr því en hitt,“ segir Már og bætir við að skaðinn sé að vissu leyti skeður hvað varðar heil­brigðis­kerfið. Fjöldi fólks sé nú í ein­angrun og við­búið sé að ein­hver hluti þeirra þurfi á inn­lögn að halda á næstunni. „Að­gerðir í sam­fé­laginu núna munu engu breyta um það,“ segir hann og bætir við að Land­spítalinn sé búinn undir aukið álag en á­skoranirnar séu fólgnar í því sem hann nefndi hér að framan.