Landspítalinn hefur verið færður yfir á neyðarstig. Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn hafa þungar áhyggjur af stöðu faraldursins.

Frá þessu er greint á vef Landspítalans.

Tæplega 100 starfsmenn eru í einangrun. Í gær greindust 23 starfsmenn með veiruna.

Nú liggja 21 sjúklingur á spítalanum með Covid-19, átján þeirra eru með virkt smit. Fjórir eru á gjörgæslu, þar af þrír í öndunarvél.

Þá greindust sjö inniliggjandi sjúklingar með veiruna í gær, sex á hjartadeild og einn á Landakoti. Samkvæmt vef spítalans eru sýnatökur og smitrakning í gangi samkvæmt áætlun.

Enn hafa fleiri sjúklingar greinst smitaðir og er sýnatökum starfsfólks ekki lokið.

Á vef spítalans segir að mönnun sé mikil áskorun en vonir standi til að það rýmkist um legurýmin með flutningum sjúklinga á aðrar heilbrigðisstofnanir.

Fordæmalaus fjöldi smita greinist á hverjum degi og búast megi við innlögnum í samræmi við það.