Það gengur ekki upp að Landspítalinn sé flöskuháls sem veldur því að fólk geti ekki stundað atvinnu sína svo mánuðum skipti, búi við takmarkanir, fundafrelsi, samkomufrelsi og fleira. Þetta sagði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni í morgun.

Sigmar ræddi stöðuna á sóttvarnaaðgerðum ásamt Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í þættinum.

Sigmar kallaði eftir upplýsingum um hvað væri verið að gera til að styrkja stöðu spítalans þannig að ekki þyrfti að setja meiriháttar skerðingar á mannréttindi fólks vegna 20 til 30 manns sem þurfi að leggjast inn á spítala.

Þá tók Sigmar upp hanskann fyrir sóttvarnalækni og sagði Þórólf Guðnason einungis vera fylgja sínu lögbundna hlutverki, að skoða sóttvarnir. Það væri síðan í höndum stjórnvalda og vonandi þingsins í framtíðinni að taka tillit til allra annarra sjónarmiða líkt og mannréttinda.

Bregðast við breyttum veruleika

Diljá sagði misskilnings hafa gætt í umræðu um hlutverk alþingismanna í umræðunni um sóttvarnaaðgerðir vegna Covid-19. Hún sagði Alþingi ekki eingöngu löggjafa heldur einnig mikilvægan vettvang lýðræðislegrar umræðu. Alþingi færi með eftirlits- og aðahaldshlutverk gagnvart stjórnvöldum og stjórnsýslunni og að þingmönnum bæri skylda að taka þátt í því.

„Við getum ekki fríað okkur ábyrgð þegar það kemur að svona stórum málaflokki og staðið til hliðar við hann,“ sagði Diljá meðal annars.

Diljá sagði mikilvægt að bregðast við þeim breytta veruleika sem blasti við líkt og mörg nágrannaríki hafi nú þegar gert. Vísaði hún til styttingar á einangrun og rýmkun á sóttkvíarreglum.

Þingið staðfesti takmarkanir

Sigmar tók undir þetta og sagði ágætis umræðu hafa átt sér stað á Alþingi fyrir nokkru þar sem þingmenn flokka hafi kallað eftir því að þingið kæmi meira að ákvörðunum um sóttvarnaaðgerðum.

Að sögn Sigmars hafi sama fyrirkomulag verið á ákvörðunum um sóttvarnaaðgerðir síðastliðin tvö ár og vísaði hann þar til minnisblaðsins sem sóttvarnalæknir skilar til ríkisstjórnarinnar, „svo ákveður ríkisstjórnin eitthvað á einhverjum á fundi og afleiðingin af því er að það eru meiriháttar takmarkanir á öllum okkar mannréttindum og þetta er orðið svo öfugsnúið að nú þurfum við að fara rökstyðja eðlileg réttindi en ekki takmarkanir á eðlilegum réttindum.“

Sigmar benti á að það væri jafnvel hægt að hafa það þannig að þingið þyrfti að staðfesta takmarkanir á mannréttindum fólks og benti á að það væru dæmi um slíkt á Norðurlöndunum.

Þjóðerni skipti ekki máli

Aðspurð út í óbólusetta erlenda aðila með íslenskar kennitölur voru Diljá og Sigmar sammála um að óþarfi væri að ræða þessa hluti út frá þjóðerni fólks aðalatriðið væri að reyna ná til óbólusettra.

„Látum ekki faraldurinn skipta okkur upp í endalaus lið,“ sagði Sigmar. Diljá tók undir það og sagði að með þessari umræðu væri verið að búa til óþarfa sundrung. „Aðalmálið er að við tökumst áfram á við þetta saman eins og við höfum gert.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Sigmar og Diljá í þættinum Bítið á Bylgjunni í heild sinni hér.