Landspítalinn er nú í viðræðum við erlendar starfsmannaleigur vegna vöntunar á sérhæfðum gjörgæsluhjúkrunarfræðingum. Þetta segir Ólafur G. Skúlason, forstöðumaður á spítalanum í samtali við Vísi.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, greindi frá því á Fréttavatkinni á Hringbraut í gær að leitað verður til einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu til að létta undir á Landspítalanum í manneklu á gjörgæslunni.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að Klínikin Ármúla svaraði neyðarkalli Landspítalans sendi fjóra af sínum heilbrigðisstarfsmönnum til að styðja við mönnun á gjörgæsludeild spítalans, bæði hjúkrunarfræðinga og lækna.
Ólafur segir að starfsfólkið frá Klíníkinni muni hjálpa þeim mikið og er þakklátur fyrir veitta aðstoð. Hins vegar þarf fleiri starfsmenn til að mæta ástandinu.
Samkvæmt Ólafi er Landspítalinn að ræða við starfsmannaleigur erlendis m.a. á Norðurlöndunum til þess að fá sérhæfða gjörgæsluhjúkrunarfræðinga sem hafa reynslu af því að ferðast á milli landa. Ólafur gat ekki sagt til um kostnaðinn við þessar aðgerðir.